145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[15:40]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Frumvarpið er nú endurflutt með tveimur breytingum sem gerðar hafa verið með hliðsjón af breytingum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis lagði til á síðasta þingi. Í grunninn er frumvarpið hins vegar byggt á þingmannafrumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur o.fl. sem Alþingi samþykkti á fundi sínum 16. maí 2014 að vísa til ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Með frumvarpinu er lagt til að rýmkaðar verði heimildir til notkunar á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á vöru og þjónustu og er lagt til að heimilt verði án sérstaks leyfis að nota fánann við markaðssetningu á vöru og þjónustu sem er íslensk að uppruna.

Orðalagið „íslensk að uppruna“ er nýtt í lögunum og er nánar skilgreint í 2. gr. frumvarpsins hvað felst í því. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er meginreglan sú að varan telst íslensk að uppruna ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Með innlendu hráefni er átt við hvers kyns hráefni sem ekki er innflutt, svo sem íslenskar landbúnaðarafurðir, íslenskar sjávarafurðir, þ.e. afurðir af Íslandsmiðum sem landað er hér á landi, eldisfisk, íslenskt grænmeti og aðrar jurtir sem ræktaðar eru hér á landi, einnig hvers kyns jarðefni sem numin eru hér á landi, íslenskt vatn o.s.frv.

Auk meginreglunnar getur vara samkvæmt frumvarpinu talist íslensk að uppruna samkvæmt þremur sérreglum. Í fyrsta lagi ef um er að ræða hefðbundna íslenska matvöru eða vöru sem á sér langa framleiðslusögu hér á landi. Í öðru lagi vegna hönnunar vöru og í þriðja lagi vegna hugverka.

Hvað varðar hefðbundna íslenska vöru og vöru með langa framleiðslusögu hér á landi þá er lagt til að varan teljist íslensk að uppruna í skilningi laganna ef hún hefur verið framleidd hér á landi í a.m.k. 30 ár undir íslensku vörumerki jafnvel þótt hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða öllu leyti og að sama skuli gilda um matvöru sem framleidd er samkvæmt íslenskri hefð, t.d. kleinur, laufabrauð o.fl.

Hvað hönnunarvörur varðar þá er lagt til að slík vara teljist íslensk að uppruna ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki jafnvel þótt hún hafi verið framleidd erlendis úr erlendu hráefni. Þetta á þó ekki við ef um er að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika. Dæmi um slíkt hráefni væri íslenska ullin. Þannig væri ekki nægilegt samkvæmt þessari reglu að snið og munstur lopapeysu, svo dæmi sé tekið, sé hannað af íslenskum aðila heldur getur lopapeysa aðeins talist íslensk að uppruna ef hún er framleidd úr íslenskri ull.

Loks er kveðið á um að hugverk teljist íslensk að uppruna ef þau eru samin eða sköpuð af íslenskum aðila. Með íslenskum aðila í frumvarpinu er átt við einstaklinga og lögaðila með íslenskar kennitölur.

Virðulegur forseti. Þau sjónarmið sem búa að baki frumvarpinu lúta fyrst og fremst að því að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna í þeim skilningi sem kveðið er á um í frumvarpinu. Enn fremur að þeir sem setja slíka vöru á markað og vilja koma íslenskum uppruna vörunnar á framfæri með skýrum hætti, t.d. til að ná athygli erlendra ferðamanna, geti merkt hana þjóðfána Íslendinga. Má ætla að slíkar merkingar geti þjónað mikilvægu hlutverki við markaðssetningu bæði hér heima og erlendis.

Eins og áður segir er lagt til að almenn leyfisskylda fyrir notkun fánans í markaðsskyni verði aflögð en í stað þess verði byggt á eftirliti sem fram fari með þeim hætti sem lýst verður hér á eftir. Samkvæmt 8. gr. núgildandi laga um þjóðfánann og ríkisskjaldarmerkið fer um rannsókn mála vegna ágreinings um rétta notkun þjóðfánans að hætti sakamála en úrskurðarvaldið er hjá forsætisráðuneytinu. Í frumvarpinu er lagt til að annar háttur verði hafður á varðandi eftirlit með notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu samkvæmt 12. gr. laganna og er lagt til að Neytendastofu, sem starfar samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, verði falið eftirlit á því sviði. Þykir verkefnið falla vel að eftirlitshlutverki stofnunarinnar. Mikilvægt er að eftirlit verði skilvirkt þannig að einungis þeir sem með réttu er heimilt að nota þjóðfánann í markaðsskyni komist upp með þá notkun. Er talið að Neytendastofa sé best til þess fallin að halda uppi slíku skilvirku eftirliti og er lagt til að sömu reglur gildi um eftirlit stofnunarinnar að því er varðar málsmeðferð, úrræði og viðurlög sem og kærurétt til áfrýjunarnefndar neytendamála og almennt gildir um eftirlit stofnunarinnar, samanber ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Virðulegi forseti. Við samningu frumvarpsins var haft samráð og óskað umsagna frá innanríkisráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Neytendastofu, Sambandi garðyrkjubænda, Samtökum iðnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Einkaleyfastofu, Íslandsstofu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Félagi atvinnurekenda og Hönnunarmiðstöð Íslands. Af niðurstöðu samráðs og umsagna sem borist hafa er ljóst að það er almennur stuðningur meðal hagsmunaaðila við breytingar í þá veru sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þá liggur fyrir jákvæð afstaða Neytendastofu til þess aukna eftirlitshlutverks sem henni er falið samkvæmt þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.