145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að minna okkur á þann tíma þegar hann var hér einn helstur fréttahauka. Það voru ógleymanlegir tímar í íslenskri fréttamiðlun og ýmsir menn honum eigi allfjarri sem áttu þátt í þeirri gullöld líka.

Hv. þingmaður mátti ekki misskilja ræðu mína. Ég var ekki að andmæla því sem hann sagði. Ég var sammála í fyrsta lagi ýmsum varnaðarorðum sem komu fram í máli hæstv. forsætisráðherra. Hv. þm. Karl Garðarsson gekk lengra. Ég hef fulla samúð með því sem hann sagði. Ég held ekki að það sé endilega tilgangurinn með þessu frumvarpi að selja meira af vöru sem er fjöldaframleidd í Kína af íslenskum fyrirtækjum. Við skulum skoða það í framhaldinu. Fyrst skulum við ganga hægt um gáttir og vera íhaldssöm í því hvernig við nýtum þá möguleika sem þarna kunna að opnast. Hv. þingmaður þarf því ekki að taka ræðu mína þannig að ég hafi verið að gagnrýna hann. Þvert á móti lýsti ég því yfir — og það hefur sennilega hljómað eins og sírenusöngur í eyrum hv. þingmanns og fyrrverandi formanns Lögmannafélagsins, Brynjars Níelssonar — að ég tæki undir með hv. þingmanni um að við ættum að vera íhaldssamir í þessum efnum.

Það breytir ekki hinu að ég er þeirrar skoðunar að samþykkt þessa frumvarps opni leiðir til þess að taka þéttar utan um heildstæða markaðssetningu á Íslandi. Það er þó ekki orðið sem ég er að leita að. Ég hef ekki íslenska þýðingu á orðinu „branding“, sem sagt að koma Íslandi sem heild á framfæri þannig að þegar menn sjá merkið, heyra minnst á Ísland þá sprettur upp tiltekin mynd sem vekur í huganum hugsanir um hreinleika. Það er svo dýrmætt í þessum heimi sem við lifum í núna, sérstaklega ef við ætlum að halda áfram að vera á mælikvarða a.m.k. Evrópu verulega mikilvægt matvælaframleiðsluland.