145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, mál sem oft hefur verið rætt á Alþingi, allar götur frá 2010 mundi ég halda. Ætli upphafið sé ekki, eins og hér var talað um áður, í janúar 2009 þegar þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, skipaði nefnd sem fór af stað með málið og skilaði áliti sem hér hefur verið vitnað í. Síðan var þingsályktunartillaga flutt árið 2010 en náði ekki í gegn. Því lauk með samþykkt þingsályktunartillögu og 33 alþingismenn samþykktu hana, 13 greiddu atkvæði á móti, 4 greiddu ekki atkvæði, 5 voru með fjarvist og 8 voru fjarverandi. Það var þess vegna sem ég hváði í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan, þegar hann talaði um nauman meiri hluta fyrir samþykkt tillögunnar. Ég tel að sá meiri hluti hafi ekki verið naumur. Það voru 33 alþingismenn sem sögðu já við þessari þingsályktunartillögu eða 20 fleiri en sögðu nei. Það tel ég vera afdráttarlausa niðurstöðu og skýran vilja Alþingis, það sem þar kom fram.

Ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum þeirra sem voru ekki sammála þessari tillögu þá og eru greinilega ekki sammála frumvarpinu og ég óska á sama hátt eftir því að þeir þingmenn beri virðingu fyrir minni skoðun. Eins og ég sagði í ræðu minni í október 2011 — þegar málið var flutt hafði ég átt sæti í heilbrigðisnefnd, eins og hún hét þá, í eitt eða tvö ár — þá komu gestir komu á fund heilbrigðisnefndar og sögðu eitthvað á þá leið að þeim fyndist ekkert sérstaklega gaman að þurfa að ganga fyrir nefnd alþingismanna til að lýsa þeirri skoðun sinni að þau vildu gjarnan fá að eignast börn eða ala upp börn eins og flestir gera en gætu það ekki, meðal annars af líffræðilegum ástæðum. Ég sagði það þá, og skal segja það enn, að mér fannst málflutningur þeirra sem komu fyrir nefndina það góður að ég fór að kynna mér málið miklu betur. Það leiddi til þess að ég var einn af flutningsmönnum tillögunnar í upphafi þings árið 2011 og var einn af þeim 33 sem samþykktu tillöguna sem þá var samþykkt sem varð svo undanfari þess frumvarps sem hæstv. ráðherra flytur hér nú og ég ætla að koma betur að í seinni hluta ræðu minnar.

Ég man eftir því að þegar verið var að vinna þessa tillögu sem leiddi til samþykkis þá var mikil vinna í gangi. Það voru fulltrúar úr öllum flokkum sem voru að reyna sitt besta til að setja fram tillögu sem sem flestir gætu sætt sig við og setja þar inn skilyrði. Það voru ströng skilyrði sem margir vildu setja inn, sem rötuðu inn í þingsályktunartillöguna, og gerðu það meðal annars að verkum að 33 alþingismenn sögðu já en einungis 13 nei. Mér sýnist að það hafi verið fulltrúar úr öllum flokkum sem sögðu já og það var fólk úr öllum flokkum sem sagði nei. Þannig er nú bara stundum gangur mála.

Ég hika ekki við að halda því fram að mikill meiri hluti alþingismanna hafi samþykkt þingsályktunartillöguna um að velferðarráðherra skipaði starfshóp sem undirbyggi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp úr tillögunni vegna þess að hún er mjög mikilvæg:

„Við vinnuna verði meðal annars lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu. Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra vestrænna þjóða lögð til grundvallar.“

Svo var talað um að frumvarp yrði lagt fram svo fljótt sem verða mætti.

Ég held að það frumvarp sem við sjáum hér og hæstv. ráðherra hefur flutt taki á öllum þessum málum sem Alþingi ályktaði um 18. janúar 2012. Að sjálfsögðu geta álitamál áfram verið uppi á meðal þingmanna. Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti: Ég er stuðningsmaður þessa frumvarps eins og það liggur hér fyrir. Ég hef þó alltaf þann fyrirvara á öllum frumvörpum að við vinnu fagnefndar kunni að koma fram atriði eða breytingartillögur sem við þurfum að taka tillit til og þá áskil ég mér að sjálfsögðu rétt til þess við frekari vinnu.

Það hefur líka verið gert hér að umtalsefni af hverju við Íslendingar, sem erum að detta í 320 þúsund manna þjóð á næstu vikum eða mánuðum, séum að gera þetta þegar stærri lönd hér í kringum okkur, sem við berum okkur stundum saman við, gera það ekki. Þá get ég sagt það, og sagði það líka í ræðu árið 2011 þegar það mál var flutt, að þar vitnaði ég meðal annars í langt og gott samtal við prófessor Reyni Tómas Geirsson, yfirlækni og forstöðumann kvennasviðs, en hann taldi að það gæti verið kostur í fámenninu — hans tillaga meðan við vorum að vinna þetta mál í viðkomandi nefnd var að sjálfsögðu sú að setja þessa fagnefnd, sem hér er fjallað um í einni lagagreininni, og hún færi í gegnum hvert einasta atriði, ræddi við einstaklinga og úrskurðaði um það hvort staðgöngumæðrun yrði leyfð. Ég held með öðrum orðum að þarna komi inn að fámennið er kostur hvað þetta varðar. Ég sagði líka í ræðu minni á þessum tíma, nýbúinn að horfa á mynd frá Indlandi um staðgöngumæðrun, að ég vildi frekar leyfa þetta hér heima og þá undir ströngu eftirliti en þurfa að sjá á eftir löndum mínum fara til umræddra landa með þeim afleiðingum sem það hefur haft í för með sér.

Það var ekkert sérstaklega glæsileg mynd sem var dregin upp í þessari sjónvarpsmynd af aðstæðum staðgöngumæðra á Indlandi og í stuttu máli var það það sem gerði að verkum að ég fór að kynna mér málið betur og gerðist stuðningsmaður þess. Ég ætla ekkert að gagnrýna að þetta hafi tekið langan tíma. Það er kannski eðlilegt að það taki þetta langan tíma, þetta er stórt og viðamikið mál og mörg álitamál sem koma upp. Í vinnu fagnefndarinnar getur eitthvað komið í ljós sem þarf að skoða, það er eðlileg vinna við frumvarp áður en það verður að lögum.

Mér sýnist við fyrsta yfirlestur frumvarpsins að tekið hafi verið tillit til allra þeirra sjónarmiða sem voru sett inn í þingsályktunina sjálfa. Margir komu að henni, fulltrúar úr öllum flokkum voru í nefndinni, á meðan við vorum að reyna að klára málið og koma því til meðferðar í þinginu, en hún var samþykkt þann 18. janúar árið 2012.

Starfshópurinn leitaðist við það allan tímann að raungera þessi markmið, að fella staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem best að íslensku lagaumhverfi og hélt til þess fundi, fékk gesti á fund, stóð fyrir fundi norrænna sérfræðinga um staðgöngumæðrun, kynnti frumvarpsdrögin á fundi með hagsmunaaðilum og velferðarnefnd Alþingis og stóð fyrir opnu umsagnarferli í lok árs 2014. Þá var munnleg skýrsla flutt hér á Alþingi í janúar 2014 og rædd.

Mér finnst markmið frumvarpsins vera þannig að ég held að það taki á öllum málum sem taka þarf á eins og því að stuðla að vandaðri framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni til að tryggja hag og réttindi barns sem fæðist eftir staðgöngumæðrun, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og síðast en ekki síst farsæla afkomu væntanlegra foreldra. Í öllum þessum lagagreinum er það rakið og í frumvarpinu er farið inn í sex eða sjö lagabálka til breytinga. Ég verð því að segja alveg eins og er, ég ítreka það, að mér finnst hafa verið unnið mjög faglega að þessu verki og að allir þeir sem að því hafa komið eigi þakkir skildar fyrir að taka tillit til þessara sjónarmiða og fella þau inn í það frumvarp til laga sem hér er lagt fram.

Ég ætla ekki við 1. umr. að fara betur út í málið hvað það varðar. Mér finnst ég ekkert þurfa að taka þátt í umræðu um það að reyna að sannfæra þingmenn eða fá þá til að skipta um skoðun sem eru á móti frumvarpinu eða á móti staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það er ekki mitt mál. Skoðanir eru skiptar um þetta meðal þingmanna og það er bara allt í lagi. Við eigum að ræða það hér opinskátt á Alþingi, hvort sem það er við 1. umr., 2. umr. eða 3. umr., fara í gegnum þetta mál og gera það sem best úr garði svo að við getum öll verið stolt af.

En ég ítreka það að lokum að afstaða mín breyttist mikið við þessar heimsóknir til heilbrigðisnefndar þegar verið var að ræða þetta mál á þessum árum, 2010–2012, heimsóknir fólks sem á við barnleysi að stríða og getur ekki átt börn á eðlilegan hátt, hvernig það lýsti sjónarmiðum sínum. Mér fannst ég hiklaust geta tekið þátt í þessari umræðu, samþykkt þingsályktunartillöguna, hvatt til þess að frumvarpið yrði samþykkt og að það kæmi hér inn til Alþingis og við myndum ræða það. Að lokum mundi Alþingi greiða um það atkvæði og meiri hluti alþingismanna, ef hann væri fyrir hendi, fyrir samþykkt frumvarpsins, geri það þá að lögum. Mér er alveg sama þó að við yrðum fyrst af Norðurlöndunum. Við höfum áður rutt brautina í mörgum umdeildum málum hér á Íslandi og ég held að við getum bara verið stolt af því, virðulegi forseti.

Eins og þetta liggur fyrir mér nú þá er ég stuðningsmaður frumvarpsins og þakka öllum sem hafa komið að því að semja það fyrir góða vinnu. Ég áskil mér rétt til að fylgjast með vinnu nefndarinnar og þeim tillögum sem þar kunna að koma fram áður en málið kemur til endanlegrar afgreiðslu á Alþingi. Ég er þeirrar skoðunar að meiri hluti alþingismanna vilji samþykkja staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, vilji vanda sig við það að við setjum hér góða löggjöf sem aðrar þjóðir geta jafnvel tekið tillit til.