145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra fer fyrir ríkisstjórninni, fer fyrir flokki sem lagði á það mikla áherslu að verðtryggingin yrði afnumin og þess vegna er mjög undarlegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vilja standa fyrir máli sínu í sérstakri umræðu. Mér finnst full ástæða til að styðja þessa dagskrártillögu og leggja hana fram, ég sjálfur átti í miklu basli á kjörtímabilinu í að fá hæstv. forsætisráðherra til að koma hingað í þingsal og taka þátt í sérstakri umræðu. Tvær beiðnir mínar hafa mistekist í þeim efnum. Önnur var um afnám hafta og ég ákvað einfaldlega að eiga þá umræðu við annan ráðherra og það gekk snurðulaust fyrir sig. Hins vegar vildi ég að gefnu tilefni sérstaka umræðu um stöðu fullveldisins og EES-samninginn en það varð ekki og sú beiðni fjaraði út. Ég hef því fullan skilning á því að menn reyni að beita óvenjulegum aðferðum og dagskrártillögum til að reyna að fá hæstv. forsætisráðherra til að koma í þingsal og eiga sérstakar umræður við þingmenn. En það virðist einhvern veginn vera þannig að allar beiðnir um (Forseti hringir.) sérstakar umræður við hæstv. forsætisráðherra enda sem mjög sérstakar umræður um hann og viðhorf hans til þingsins.