145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta allt er orðið mjög pínlegt, hæstv. forsætisráðherra. Stjórnarandstaðan verður auðvitað að beita öllum ráðum og þar með þessari dagskrártillögu til að reyna að nálgast hæstv. forsætisráðherra til að ræða eitt mesta kosningaloforð Framsóknarflokksins. Ég er farin að halda að hæstv. forsætisráðherra sé að kalla eftir athygli, að allt snúist um hann, hvar hann sé og af hverju hann sé ekki í þinginu. Er þetta einhver athyglissýki sem háir forsætisráðherra? Af hverju sinnir hann ekki skyldum sínum og kemur í þær umræður sem þarf?

Það að vera að henda á milli sín þessu máli, afnámi verðtryggingar, á milli forsætisráðherra og fjármálaráðherra eins og heitri kartöflu er ekki lengur fyndið, ekki frekar en að verið sé að henda húsnæðismálunum frá upphafi kjörtímabilsins á milli hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. (Forseti hringir.) Þetta er allt orðið einhver leikþáttur sem við í stjórnarandstöðunni erum leiksoppar í.