145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í morgun kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra í útvarpinu að það væru fleiri leiðir en sérstök umræða til að ræða mál í þinginu. Það sama hefur komið fram í máli hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég tel þá rétt að upplýsa, herra forseti, að á þessu kjörtímabili hef ég lagt fram fyrirspurnir til skriflegs svars, óundirbúnar fyrirspurnir og undirbúnar fyrirspurnir til hæstv. forsætisráðherra, fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra um verðtrygginguna og skyld efni. Ég hef ekki fengið fullnægjandi svör og ákvað því í febrúar síðastliðnum að leggja fram beiðni um sérstaka umræðu. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært að verða við henni, en á sama tíma og við krefjumst umræðu í þinginu um þetta mál kýs hann að fara á útvarpsstöðina Bylgjuna og ræða þar um málefnið.

Herra forseti. Ég sætti mig ekki við að eftirlitshlutverk okkar sé hunsað á þennan hátt.