145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að það eykur ekki virðingu Alþingis að forsætisráðherra lýðveldisins hunsi Alþingi. Þetta er auðvitað orðið spurning um hvað þingið á að láta bjóða sér. Ráðherrar eiga að svara fyrir störf sín á Alþingi. Um það fjallar stjórnarskráin. Um það fjallar IV. kafli þingskapalaga og fyrir því er rík þingræðishefð. Og almennt hefur verið litið svo á að forsætisráðherra gæti svarað fyrir hvað eina sem undir ríkisstjórn hans heyrir og þurfi ekki leyfi frá fagráðherrum til. Hann er eða á að vera oddviti ríkisstjórnarinnar og verkstjóri. En sá hæstv. forsætisráðherra sem við höfum núna er það ekki. Hann hunsar Alþingi, hefur ekki áhuga á neinu nema húsavernd, gömlum húsum og hleðslum og í eina skiptið sem glóð kemur í augun á hæstv. forsætisráðherra er þegar finnast einhvers staðar gamlar hleðslur. Þetta er orðið algerlega ólíðandi. Ég hvet þá þingmenn sem eru að þvæla um að hér (Forseti hringir.) sé eitthvert leikrit í gangi að lesa stjórnarskrána, lesa þingskapalögin og átta sig á því hvers (Forseti hringir.) konar niðurlæging það er fyrir Alþingi að búa við forsætisráðherra af þessu tagi.