145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það þyrfti nú að setja upp vídeósýningu til þess að rifja upp síðasta kjörtímabil fyrir þeim þingmönnum sem hér kvarta yfir því að við leggjum fram dagskrártillögu eða ræðum yfir höfuð um störf þingsins.

Mig langar til þess að lesa upp úr þessari bók okkar hérna sem heitir Þingsköp Alþingis. Þar segir meðal annars í 3. mgr. 49. gr., með leyfi forseta:

„Eftirlitsstörf Alþingis gagnvart ráðherrum taka til opinberra málefna. Með opinberu málefni er átt við sérhvert málefni er tengist hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess, svo og félaga og annarra lögaðila …“

Þetta á við verðtrygginguna, virðulegi forseti, og forsætisráðherra á að hunskast hér til þess að svara fyrir þetta málefni.

Síðan segir í 1. mgr. 50. gr., sem er afar mikilvægt að þingmenn og ráðherrar og forsætisráðherra átti sig á, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun um þingmál, við sérstakar umræður, í svörum við fyrirspurnum þingmanna …“

Hér er það alveg kristaltært að forsætisráðherra ber að koma og tala við þingið (Forseti hringir.) um þau málefni sem snerta málefni ríkisins, stofnana og samfélagsins alls. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það er mál (Forseti hringir.) að linni og nú á forsætisráðherra að koma hér og svara.