145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nýting náttúruauðlinda hefur lagt grunninn að hagsæld Íslands. Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er orðið eitt mikilvægasta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins í dag. Þar sem við Íslendingar byggjum efnahag okkar að stórum hluta á hreinni náttúru og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda er slíkt samstarf okkur afar mikilvægt. Aukin vitund almennings um umhverfismál hvetur til dæmis til þess að fiskveiðum sé stjórnað á ábyrgan hátt. Stjórn fiskveiða á Íslandi hefur verið í mótun um áratugaskeið og leiðarljósið verið að fiskveiðar séu í senn hagkvæmar og sjálfbærar með tilliti til nýtingar og viðhalds náttúruauðlindarinnar. Áherslur á sjálfbærni og virðingu fyrir náttúrunni eru innbyggðar í stjórnkerfi fiskveiða sem fela í sér hagræna hvata til góðrar umgengni og að langtímahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi.

Okkur hefur tekist að snúa frá ofveiði og of miklum ágangi á auðlindir sjávar til þess að reka sjávarútveg sem tryggir bæði sjálfbærni og arðsemi. Horft er til Íslendinga sem fyrirmyndar á þessu sviði þar sem veiðar eru byggðar á víðtækum rannsóknum og öflugu eftirliti með veiðum og heildarafla.

Lykillinn að verðmætasköpun þessa kerfis er sjálf umhverfisverndin og hafa verður í huga að arðbærni og umhverfisvernd eru ekki andstæðir pólar heldur samverkandi þættir. Umhverfisvitund forsvarsmanna fyrirtækja og almennings eykst jafnt og þétt og kröfur um hreint umhverfi og rekjanleika matvæla aukast í samræmi við það.

Í því samhengi langar mig til að vekja athygli á mjög svo góðu framtaki HB Granda sem opnaði sorpflokkunarstöð í Reykjavík í gær að fyrirmynd þeirrar sem fyrirtækið hefur starfrækt á Vopnafirði í nokkur ár. Með því framtaki er fyrirtækið að taka ábyrgð á því sorpi sem til fellur í fyrirtækinu, hvort sem er úti á sjó eða landi. Þetta er dæmi um það hvernig fyrirtæki fléttar umhverfisvernd inn í alla sína vinnuferla.

Forsenda þess að íslenskt atvinnulíf verði farsælt um ókomin ár og lífskjör þjóðarinnar batni er virðing fyrir umhverfinu, nýtingu auðlinda og sjálfbærni.


Efnisorð er vísa í ræðuna