145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Nú styttist í einhvern mikilvægasta fund samtímans en það er loftslagsráðstefnan í París sem hefst síðar í þessum mánuði. Það er talið að um 40.000 manns muni sækja fundinn. Það er önnur nálgun nú í París en hefur verið lögð áhersla á áður og það er sú nálgun að með þátttöku sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka, ekki aðeins fulltrúum ríkisvaldsins, sé hægt að ná góðu samkomulagi. Þetta er að mínum dómi mun vænlegri aðferð til árangurs.

Menn muna að loftslagsfundurinn sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum var því miður það sem kallað hefur verið diplómatískt slys. En nú veit allur heimurinn að við höfum ekkert um annað að velja, við verðum að draga úr gróðurhúsaáhrifum vegna útblásturs ef við ætlum ekki að granda okkur sjálfum á næstu áratugum.

Það sem byggir einnig undir bjartsýni nú um að árangur náist er að Kínverjar eru það ríki sem losar mest af CO2 í heiminum og þeir hafa gefið yfirlýsingu um að þeir ætli að setjast að samningaborðinu. Ísland getur látið mikið að sér kveða á ráðstefnunni í París. Á fundinum verður norrænn kynningarbás þar sem Ísland mun kynna jarðhita, landgræðslu, loftslagsvísindi og fleira. Við erum með hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku í heiminum. Hér eru gríðarlegir möguleikar á CO2-bindingu með skógrækt og landgræðslu og síðast en ekki síst eru hér gríðarlegir möguleikar í orkuskiptum í samgöngum þar sem við gætum farið yfir í vistvæna sjálfbæra orkugjafa og sparað með því útlosun og auðvitað mjög mikinn gjaldeyri.


Efnisorð er vísa í ræðuna