145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[22:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum haft í fjárlögum núna í nokkur ár heimild til að selja það sem er umfram 70% eignarhlut ríkisins. Staða málsins er sú í augnablikinu að Bankasýslan er að vinna að undirbúningi þessarar sölu og hefur boðað að hún muni kynna frumniðurstöður sínar síðar á þessu ári en fullbúnar hugmyndir um söluhugmyndir og framkvæmd sölu þessa hlutar snemma á næsta ári, eða í janúar.

Í sjálfu sér er erfitt að úttala sig um það fyrr en Bankasýslan hefur skilað þessari athugun sinni af sér hvort það muni geta gerst á næsta ári eða hvort það ætti að gerast yfir einhvern lengri tíma en mér hefur sýnst vera rúm fyrir töluvert meira framboð af hlutabréfum miðað við (Forseti hringir.) það hvernig veltan hefur þróast að undanförnu.

Síðan er það álitamál hvort ekki þurfi að minnka bankann eitthvað og gera þannig sölu á þessum 30% hlut eitthvað léttari en ella.