145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta eru tímamót, þetta eru góð tímamót. Við erum nú að samþykkja lög um náttúruvernd sem munu vonandi standa til margra ára. Þessi niðurstaða náðist fyrst og fremst með góðri samvinnu og þegar fólk hugsar til baka þá vona ég að það hugsi fyrst og fremst um að með samvinnu er hægt að ná góðri niðurstöðu.

Við í meiri hlutanum munum ekki geta staðið að þeirri breytingartillögu sem kemur frá minni hlutanum. Það er kannski fyrst og fremst að ég tel að það sé skýrara og betra að hafa skýr ákvæði í lagatextanum sjálfum í stað þess að útdeila verkefnum til Umhverfisstofnunar. Ég hef verið þeirrar skoðunar að lagatextar eigi að vera skýrir. Þessi lög finnst mér einkennast af því að lagatextinn er skýr og það sé búið að fara í gegnum hann.

Að öðru leyti segi ég enn á ný: Til hamingju þingheimur og til hamingju Íslendingar allir.