145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og ánægjuleg og góð viðbrögð, kærar þakkir fyrir það. Heiðurinn af þessari vinnu á það fólk sem stýrði verkum og vann mjög vel á knöppum tíma, undir takmörkuðum tímafresti.

Það er alveg rétt að í stefnunni og aðgerðaáætluninni eru tímasett, ábyrgðarsett og kostnaðargreind markmið. Á árinu 2016 minnir mig að kostnaðurinn sé um 111 millj. kr. en í heildina 562 millj. kr. Við eigum síðan eftir að vinna úr því þegar fram líða stundir hvernig okkur gengur að fjármagna 2017, 2018 og 2019.

Hv. þingmaður spyr annars vegar um tillögu A.6, um þjónustuna á BUGL. Hún kom inn eftir athugasemdafrest og þegar við höfðum gengið frá ramma og tillögu inn í fjárlagagerðina og við fundum þar af leiðandi ekki stað fyrir hana. Við tókum sem sagt inn athugasemd sem við fengum í umsagnarferlinu og settum inn í tillögugerðina til þingsins. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ekki veitir af í ljósi umræðunnar og stöðunnar. Ég skal fyrstur manna fagna því ef okkur gengur í meðförum þingsins að hraða þeirri áherslu sem þarna þarf að eiga sér stað.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um tillögu A.9, um uppsafnaða þörf fyrir búsetuúrræði, vil ég nefna sérstaklega að þar hefur verið tekið aðeins á í þessum efnum, sérstaklega hjá Reykjavíkurborg. Við vorum um tíma með mjög mörg rými á Kleppsspítala upptekin af fólki sem komst ekki þaðan út vegna þess að það vantaði búsetuúrræði. Sem betur fer hefur verið gerð bragarbót á því, sérstaklega hjá Reykjavíkurborg, og því ber að fagna og þakka fyrir það. En engu að síður töldum við ástæðu til að halda (Forseti hringir.) þessu atriði mjög stíft inni vegna þess að það hefur verið fyrirstaða, ekki bara núna heldur í gegnum tíðina, gagnvart því að fólk með geðraskanir eigi möguleika á búsetu við hæfi.