145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

öryggisreglur fyrir hópferðabíla og strætisvagna.

192. mál
[16:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr um öryggisbúnað og belti í hópferðabílum og strætisvögnum. Því er fyrst til að svara varðandi reglur sem gilda um öryggisbelti í þessum tilteknu bifreiðum að samkvæmt 71. gr. umferðarlaga og 3. gr. reglugerðar um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum er meginreglan sú að hver sá sem situr í sæti ökutækis sem búið er öryggisbelti skal nota það á meðan ökutæki er á ferð.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er getið um undantekningar frá meginreglunni. Þær eru í tilvikum eins og þegar ekið er aftur á bak, akstur á bifreiðastæði, við bensínstöð, viðgerðarverkstæði, við erfiðar eða hættulegar aðstæður utan þéttbýlis svo sem í mikilli ófærð, í lögreglubifreiðum við flutning handtekinna manna eða annarra sem hætta kann að stafa af, við sérstaka öryggisgæslu, í leigubílaakstri, við flutning farþega í atvinnuskyni og vegna heilsufarslegra ástæðna svo eitthvað sé nefnt.

Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 er síðan að finna skilgreiningu á undirflokkum hópbifreiða auk þess sem kveðið er á um skilyrði um belti í tilteknum undirflokkum, en aðrir flokkar eru undanskildir.

Í grófum dráttum má segja að bifreiðar sem gerðar eru fyrir tíðar hreyfingar farþega í og úr bifreið og þar af leiðandi fyrir akstur þar sem aksturshraði er alla jafna minni en er leyfður á þjóðvegum þurfa ekki að vera búnar öryggisbeltum. Bifreiðar sem gerðar eru fyrir færri hreyfingar farþega í og úr bifreið og til notkunar þar sem hraði er alla jafna meiri skulu búnar öryggisbeltum.

Um strætisvagna gildir að meginþorri þeirra fellur í þann undirflokk hópbifreiða þar sem ekki er gerð krafa um að bifreiðar séu búnar öryggisbeltum. Þar sem lengri ferðir utan þéttbýlis hafa færst í vöxt hjá Strætó á síðustu árum verður þó að hafa í huga að framangreint er ekki algilt þegar kemur að bifreiðum félagsins. Í lengri ferðum þar sem ekki er um tíðar hreyfingar farþega í og úr bifreiðinni að ræða og notaðar eru hópbifreiðar þar sem gerð er krafa um að þær séu búnar öryggisbeltum gildir áður nefnd meginregla, þ.e. sú að ef bifreið er búin öryggisbeltum skuli nota þau á meðan bifreiðin er á ferð.

Í öðru lagi er spurt að því hver munurinn sé á öryggisreglum fyrir strætisvagna og hópferðabifreiðar í skipulögðum ferðum um landið svo sem frá Reykjavík til Borgarness og til Akureyrar. Hver eru rökin fyrir mismunandi reglum?

Hér er því til að svara að það skal vísast til þeirrar meginstefnu sem lá fyrir í svari við spurningu númer eitt. Hinn hefðbundni strætisvagn sem notaður er í þéttbýli og er ætlaður fyrir tíðar hreyfingar farþega í og úr honum er iðulega þannig gerður að hann er undanþeginn skyldu til að vera með öryggisbelti í sætum. Aðrar hópbifreiðar sem aka utan þéttbýlis eru síðan að meginstefnu til í öðrum undirflokkum eins og áður segir þar sem gerð er krafa um að öryggisbelti séu í sætum. Helstu ástæður fyrir þessum mismunandi reglum eru þær að í akstri hefðbundinna strætisvagna er um að ræða tíðar ferðir farþega út og inn og ökuhraði er jafnan minni en úti á þjóðvegunum. Þá verður það að koma fram hér að þessar reglur taka mið af reglum nágrannaþjóða okkar.

Í þriðja lagi er spurt: Mega hópferðabílar eða strætisvagnar aka með farþega standandi styttri eða lengri vegalengdir í skipulögðum ferðum um landið?

Samkvæmt gildandi lögum og reglum eru engar skorður settar hvar hópferðabifreiðar sem búnar eru stæðum mega aka með standandi farþega. Má til dæmis benda á að í hópbifreið í undirflokki II sem aka má hvar sem er á landinu er gerð krafa um að farþegar í sætum séu í öryggisbeltum, en jafnframt er gert ráð fyrir því að það geti verið standandi farþegar, en þeir eiga að sitja í sætum á þjóðvegum landsins.

Í frumvarpi um farþegaflutninga á landi sem lagt var fram á Alþingi í fyrra en náði ekki fram að ganga voru ákvæði um að óheimilt væri í farþegaflutningum að aka með standandi farþega þar sem leyfður er hámarkshraði sem er meiri en 80 km á klst. Rekstrarleyfishöfum í reglubundnum farþegaflutningum væri þó heimilt að hafa standandi farþega þar sem leyfður hámarkshraði er meiri en 80 km á klst. ef farartækið væri sérstaklega ætlað fyrir standandi farþega en þá skyldi farartækinu aldrei ekið hraðar en að hámarki 80 km á klst. Standandi farþegar yrðu að hafa náð 18 ára aldri og gert var ráð fyrir því að heimild til þess að hafa standandi farþega í þessum tegundum bifreiða félli alfarið niður 1. janúar 2019.

Þetta voru þau ákvæði sem voru í því frumvarpi sem ekki náði fram að ganga. Þau eru kannski til vitnis um það að í ráðuneytinu eru menn að velta fyrir sér að herða á reglum þegar kemur að standandi farþegum í bifreiðum úti um land.