145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fyrirframgreiðslur námslána.

310. mál
[18:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, þingmanni og öðrum þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir framlag þeirra. Ég vil bara segja að auðvitað er það alveg hárrétt sem hér er sagt að sá vandi sem hefur myndast vegna vanskila er ekki til kominn vegna þeirra sem eru að taka lán núna, en sjóðurinn stendur frammi fyrir þessum raunveruleika. Það þýðir að ef ekki er fundin einhver aðferð til þess að takast á við vandann og koma í veg fyrir að vanskil aukist þá þarf að setja meiri fjármuni úr ríkissjóði til að mæta vandanum.

Í raun og veru er það svo með íslenska námslánakerfið að í því er fólginn verulegur styrkur, en það hvernig við stýrum honum er aftur á móti mikið umhugsunarefni. Eins og kerfið er byggt upp hjá okkur núna þá rennur styrkurinn einna helst til þeirra sem fara frekar seint í nám og eru lengi í námi og í mjög dýru námi en mun minna til þeirra sem fara snemma í nám og klára á réttum tíma, þar er hlutfall styrksins mun lægra.

Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við endurskoðum lögin um lánasjóðinn ásamt ýmsu öðru. Meðal annars þess vegna beindi ég spurningum hv. þingmanns sérstaklega til nefndarinnar, þ.e. svo að reynt yrði að taka afstöðu til þeirra hluta sem þar eru nefndir.

Hvað varðar rétt manna til náms þá er grundvallarhugsunin með lánasjóðnum sú að tryggja eftir því sem hægt er að efnahagslegar ástæður komi ekki í veg fyrir að fólk geti sótt sér nám. Það þýðir auðvitað að það verður samfélagslegt verkefni okkar. Lánasjóðinn tel ég vera eina af farsælustu ákvörðunum sem hafa verið teknar í menntamálum Íslendinga, að byggja þennan sjóð upp. Þess vegna er mikil ábyrgð á okkur sem hér erum síðan að véla um þau mál að tryggja að sjóðurinn haldi áfram að geta starfað og hann verði þannig upp byggður að hann verði öflugur og geti veitt góðan stuðning. Til þess eru vítin að varast þau, (Forseti hringir.) t.d. ef við horfum á sjóð eins og Íbúðalánasjóð. Við viljum ekki að slíkt endurtaki sig með Lánasjóð íslenskra námsmanna.