145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

umræður um hryðjuverkin í París.

[14:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja að þakka fyrir þessar umræður. Ég skynja að við erum öll á sama stað og það er mikilvægt. Ég, eins og allir aðrir sem fylgst hafa með gangi mála í heiminum okkar, hef oft fyllst hryggð og sorg yfir þeirri grimmd sem mannskepnan getur búið yfir, það er óskiljanleg grimmd. Það er alltaf þannig þegar maður veit um einhverja sem eru á staðnum þar sem hryllingurinn er að maður fyllist meiri ótta og maður fylgist auðvitað meira með. En það þýðir ekki að hjarta manns sé ekki með öllum þeim sem þurfa að búa við svona grimmd, svona ótta og svona hörmungar eins eru einna sýnilegastar í Sýrlandi. Veruleikinn sem blasti við í París er daglegt brauð í Sýrlandi. Þar eru flóttamennirnir flestir börn sem koma og leita hjálpar hjá okkur, gleymum því ekki. Gleymum því ekki þegar við ætlum að vera hrædd að við erum að taka á móti börnum. Gleymum því ekki að ekki eru allir ungir menn sem koma frá Sýrlandi hryðjuverkamenn.

Ég votta samúð öllum þeim sem eiga sárt um að binda út af hryðjuverkunum í París og hryðjuverkunum í Beirút og út af ástandinu í Erítreu, í Afganistan, Írak, Gaza, Lhasa — heimurinn okkar er fullur af grimmd. Hvernig svarar maður grimmd? Hvernig svarar maður óttanum? Við vitum það öll. Við höfum öll talað um það í dag.

Mér finnst ljóð oft segja meira en ræður. Ég skrifaði ljóð árið 2004 sem heitir Hetjur.

Gefa eftir ræturnar,

gefa eftir land forfeðranna,

jörðina sem saga þeirra er mörkuð í.

Það þarf hugrekki til að yfirgefa

allt það sem maður þekkir.

Það þarf hugrekki

til að stíga um borð í báta,

svo ævaforna

að flestir þeirra sökkva

á hyldýpi þess óþekkta.

Það þarf hugrekki

til að setjast að á nýrri jörð.

Allt sem var er ei meir

— aðeins fjarlæg minning.

Hinar sönnu hetjur heimsins

skilja eftir

dýrmætustu fjársjóði sína,

menntun,

fjölskyldu,

menningu.

Hinar sönnu hetjur heims okkar

kjósa að flýja

í stað þess að ýta sjálfvirkum rifflum

í hendur sona sinna.

II

Stórar öldur skolast yfir þau,

salt hafsins,

sárin,

sorgin,

óttinn.

Þau gefast ekki upp.

Eru stöðugt á hreyfingu,

reyna að skjóta nýjum rótum

í ókunna mold.

En Vesturlöndin sjá heiminn

aðeins í gegnum sjónhimnu

veruleika síns.

Hinar sönnu hetjur heimsins

vaska upp diska,

þrífa klósett,

verka fiskinn.

Háskólagráðurnar rykfallnar,

gjaldfallnar.

Hinar sönnu hetjur heims okkar

bíða í flóttamannabúðum

eftir Stóradómi.

Í einfeldni okkar

óttumst við ekkert frekar

en að þau steli

ríkidæmi okkar.

Og við í vestrinu höfum fyrir löngu gleymt

hvaðan ríkidæmi okkar kemur.

Hinar sönnu hetjur

eru þeir sem eru tilbúnir

til þess að fórna öllu

fyrir umburðarlyndi.

Rödd vonar

meðal hinna óttaslegnu.

Við erum ekki hrædd.

Hinar sönnu hetjur heimsins

eru einstaklingarnir sem þora að gagnrýna

tifandi jarðsprengjurnar

sem blunda í hjörtum okkar,

brjótast út sem þjóðræknisrembingur,

ótti,

hatur,

græðgi.

Hinar sönnu hetjur heimsins velja frið.