145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mesti vandi sem Evrópa stendur frammi fyrir og hefur hugsanlega staðið frammi fyrir allt frá því að Evrópusambandið var stofnað, er sá mikli fjöldi flóttamanna sem nú knýr dyra í Evrópu. Fjöldinn er svo mikill að því má beinlínis líkja við þjóðflutninga sem þar er að gerast.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði hér fyrir örfáum mínútum að það eina sem þessir flóttamenn vildu væri að komast aftur til síns heima. Það er hárrétt. Ég tel þess vegna að Evrópa, bæði Evrópusambandið og Evrópuráðið, sem á sérstaklega að berjast fyrir mannréttindum t.d. flóttamanna og þeirra sem leita hælis í ýmsum löndum, hafi fullkomlega brugðist í þessum efnum. Það sama má segja um Atlantshafsbandalagið. Snemma árs 2013 komu fram hugmyndir, sem meðal annars voru studdar á alþjóðavísu af Íslendingum, um að beitt væri afli til að skapa stór griðasvæði í norðurhluta Sýrlands þar sem flóttamenn sem flosnað hefðu upp frá heimilum sínum gætu fundið griðastað í búðum sem kostaðar væru af Evrópusambandinu og vestrænum ríkjum. Þar væri sömuleiðis hægt að sjá til þess að þeir sem hlotið hefðu sár eða meiðsl eða örkuml gætu leitað sér lækninga. Við því var á sínum tíma skellt eyrum skolla. Það olli því að milljónir Sýrlendinga hafa þurft að flýja sitt eigið land.

Evrópa brást líka í öðru lagi með því að hún sinnti lítið stuðningi við þau ríki sem lögðu upp flóttamannabúðir, eins og til dæmis í Tyrklandi, þar sem 1,8 milljónir Sýrlendinga hafa hafst við. Þar hefur aðbúnaður verið slíkur og svo ömurlegur og Evrópusambandið svo fullkomlega blint á nauðsyn þess að leggja þar til með tyrkneskum stjórnvöldum, að þar töldu flóttamenn sínum hag betur borgið með því að leggja í sína miklu göngu sem þeir eru nú á um Evrópu.

Herra forseti. Ég tel að Evrópa hafi brugðist og ég tel að hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) og íslenska ríkisstjórnin eigi að beita sér fyrir því að griðasvæði af þeim toga (Forseti hringir.) sem ég nefndi hér fyrst og aukinn stuðningur við flóttamannabúðir, til dæmis í Tyrklandi, verði á forgangslista Evrópu.


Efnisorð er vísa í ræðuna