145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn velkist í vafa um að þetta er stórmál. Þetta er ekki smámál, hvernig sem á það er litið. Þróunarsamvinna og framlag okkar til þróunarmála er mikilvægt mál og mikilvægt að þannig sé búið að því að sátt sé um það.

Ég held að ein skýring á því hvers vegna þetta er keyrt svona fast áfram og hratt sé þessi: Illu er best af lokið. Ég hef trú á því að þetta mál hvíli ekki á traustum grunni hér í þinginu. Það er ekki rík sannfæring að baki málinu af hálfu annars stjórnarflokksins og hugsanlega einhverra þingmanna Framsóknarflokksins líka, ég skal ekkert um það fullyrða, þó að við vitum til dæmis að hæstv. núverandi forseti hefur lýst yfir mikilli ánægju með þetta þingmál.

Ég held að þegar á heildina er litið, og við metum ræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins um málið, skoðum þær, sé greinilegt að ekki er rík samstaða um málið. Hvað er þá til bragðs að taka? Það er náttúrlega bara að ráðast í hrossakaup; við fáum þetta, ég fæ þetta mál, ef þið fáið hitt. Ég held að það sé ósköp einfalt að Sjálfstæðisflokkurinn fær frumvarpið um opinber fjármál, sem er óskabarn hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar, og hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson fær sitt mál um Þróunarsamvinnustofnun sem ég held að sé í reynd í óþökk margra þingmanna stjórnarmeirihlutans.