145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski spurning kvöldsins það síðasta sem hér var rætt, þ.e. hvernig vitinu verði komið fyrir menn í þessari stöðu. Er einhver leið að fá menn til þess að draga andann og setjast yfir það hvort eitthvað sé ekki á sig leggjandi til þess að skapa að minnsta kosti einhvern lágmarksfrið um meðferð þessa máls?

Hv. þm. Oddný Harðardóttir nefndi hér til sögunnar samhengi við tillögur hagræðingarhópsins þar sem eitthvað er fjallað um samspil þróunarsamvinnu og ráðuneytis og önnur mál sem þar undir heyra. Vitnaði hún í hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, sem hefur haft sterkar yfirlýsingar og meiningar um þessi mál, þar á meðal að skera eigi niður til þróunarsamvinnu. Ég hygg nú að hún sé eini þingmaðurinn sem beinlínis hefur lýst andstöðu sinni opinberlega við aukningu í þennan málaflokk. Hún greiddi atkvæði gegn því hér. Auðvitað getur maður þar af leiðandi farið að velta því fyrir sér: Hefur hún tekið völdin í þessum efnum? Er þetta að einhverju leyti runnið undan rifjum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur?

Niðurstaðan virðist alla vega vera að birtast okkur í því að við erum heldur að fara aftur á bak en áfram í þessu og hlutfallið fer í 0,21% af vergri landsframleiðslu, ef ég veit rétt, samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs.

En þá er athyglisvert að skoða það sem fram hefur komið í umræðunni og liggur fyrir í gögnum málsins um hagræðingarþáttinn í þessu máli. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki til þess og hafi fylgst með orðaskiptum hér í dag. Er ekki hv. þingmaður sammála því að í raun og veru liggi það orðið fyrir eftir að meira að segja ráðherrann hefur viðurkennt að engin hagræðing verði af þessu? Það eru engin rök sótt í það.

Þá getum við vonandi ýtt sjónarmiðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og tillögum hagræðingarhópsins í burtu í því samhengi að það er orðin (Forseti hringir.) opinber niðurstaða allra sem rætt hafa þann þátt málsins að þessu fylgi engin hagræðing. Eða hvað?