145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gagnlegt að þetta sé rifjað upp. Það er alveg rétt, þá man maður eftir því að eitthvað ræddum við það á þessum tíma að utanríkisráðuneytið og hæstv. utanríkisráðherra fengju alveg sérstaklega hraklega útreið undir forustu flokkssystur sinnar, hv. þm. Vigdísar Harðardóttur, og auðvitað var þetta … (Gripið fram í: Hauksdóttur. ) — Hauksdóttur. Nú verður ónefnd vinkona mín í bænum óánægð með þetta mismæli. Jæja. En það var fruntalegt í garð ráðuneytanna þegar það kom hér inn eins og stormsveipur eða fallhamar rétt fyrir 2. umr. eða jafnvel 3. umr., að skera þarna allt í einu ráðuneytin upp.

Ég hef svo sem verið á svipuðum slóðum fyrr í umræðunni og hv. þingmaður varðandi það að nánast vera að reyna að hugsa upp hverjar gætu verið ástæðurnar fyrir þessu þegar það liggur alveg fyrir að það er ekkert að hjá Þróunarsamvinnustofnun. Þvert á móti er stofnunin vel rekin og er fyrirmyndarstofnun.

Hæstv. ráðherra segir sjálfur, og það getur maður svo sem haft vissan skilning á, að hann vilji ekki ræða þetta mál með því að vera að tíunda eitthvað sem sé að, það verði bara að gera enn betur.

Úr því að ekkert er að hjá Þróunarsamvinnustofnun, getur þá verið að vandamálin liggi einhvers staðar annars staðar? Sem sagt í ráðuneytinu. Er verið að fara þessa fjallabaksleið og stúta Þróunarsamvinnustofnun vegna þess að það auðveldi ráðuneytinu að leysa einhver mál hjá sér í rekstri, í mannahaldi, í skipulagi eða skipulagsbreytingum sem færðar verði í þennan búning vegna þess að Þróunarsamvinnustofnun sé að koma inn í ráðuneytið og hverfa af yfirborði jarðar sem sjálfstæð stofnun, að þá þurfi að gera þetta og hitt?

Svona breytingum má nefnilega þvert á móti búast við að fylgi kostnaður, biðlaun, mannabreytingar, þjálfun á nýju fólki eða tilfærsla á fólki í verkefnum. Hefur fjárlaganefnd (Forseti hringir.) farið ofan í það mál? Hefur ráðuneytið verið kallað fyrir og spurt hinnar gagnstæðu spurningar; ekki hvort hagræðing verði af þessu heldur hvort að það verði af þessi aukinn kostnaður, að minnsta kosti tímabundið?