145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hér er sagt, við stjórnarandstæðingar báðum ekki um þennan kvöldfund. Meiri hlutinn vildi hafa hann. Þá hlýtur þeim hinum sömu sem með því greiddu atkvæði að hafa verið ljóst að þeir yrðu bundnir af þingskyldum sínum hér í kvöld. Öllum mönnum fremst hefði þá hæstv. utanríkisráðherra átt að vera ljóst að úr því að hér var knúinn á kvöldfundur með atkvæðagreiðslu til að ræða hans mál hlyti hann að þurfa að vera á staðnum í kvöld í þeirri umræðu.

Í 65. gr. laga um þingsköp Alþingis sem eru lög í þessu landi stendur, með leyfi forseta:

„Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er …“

Hafa allir nema þessir fjórir stjórnarliðar sem eru í húsinu tilkynnt um forföll? Hefur hæstv. utanríkisráðherra tilkynnt um forföll? Hann veit að hans er óskað við umræðuna. Það ætti varla að hafa farið fram hjá manninum lengur og þess vegna finnst mér (Forseti hringir.) hreinlega ekki við hæfi að halda þessari umræðu áfram nema úr þessu rætist hið snarasta, að hæstv. ráðherra komi. Væri samt tæplega neinn bragur á því að ræða þetta að öllum þeim fjarstöddum sem samþykktu kvöldfundinn.