145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:53]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu frá hv. þingmanni. Mér finnst pólitíkusar ekki eiga að vera í svona fagnefndum. Þetta á að vera innan stofnunarinnar og innan ráðuneytisins ef svo ber undir. Mér finnst mjög ankannalegt að ætla að setja þingmenn inn í málefni þróunarsamvinnu til þess að auka stefnumótun. Ef það er vandamál að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi unnið gegn íslenskri utanríkisstefnu er það væntanlega málefni sem hægt er að laga. Pólitíkusar, við sem sitjum á þingi — þetta er ekki hlutverk okkar. Það er þannig sem slæmar ákvarðanir hafa verið teknar í þróunarsamvinnu, þegar pólitíkusar ákveða að reisa mjólkurbú þar sem engar beljur eru. Það er þá sem allt fer úr böndunum. Við þingmenn erum oft sakaðir um að vera í endalausu kjördæmapoti. Hvað mundum við segja ef við værum allt í einu komin í þingmannanefnd Vegagerðarinnar eða Námsgagnastofnunar? Ég veit ekki alveg hvort það er þannig en mér þætti mjög einkennilegt ef þingmenn væru að rífast um hvort hjólið í bókinni yrði rautt eða blátt og hvaða undirtóna það ætti að gefa til ungra barna. Ég vil ekki að pólitíkusar séu að stússast með málefni á þennan hátt. Það hefur ekki beint með lagasetningu að gera að taka þátt í þessari nefnd, eftir því sem ég best veit, hvort hún eigi að funda að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári eða eitthvað því um líkt, þannig að mér finnst það óþarfi.