145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir góða ræðu. Hann fór ágætlega yfir það í ræðu sinni hvert eðli þróunarsamvinnunnar er og hvernig henni er framfylgt. Við höfum mörg hér verið að færa rök fyrir því að það fari illa á að setja þessa tvíhliða samvinnu inn í utanríkisráðuneytið. Mig langaði til þess að spyrja þingmanninn, sem situr í utanríkismálanefnd, hvort það hafi eitthvað verið farið yfir það af hálfu ráðuneytisins hvernig þá yrði haldið utan um þessa starfsemi í framhaldinu. Verða sérstakir starfsmenn sem sjá um það? Nú er það þannig að í utanríkisþjónustunni starfar fólk sem hefur það fyrst og fremst sem hlutverk sitt að gæta hagsmuna Íslands. Það er eðli utanríkisþjónustunnar. Það á auðvitað í alþjóðlegum samskiptum þar sem við tökum á okkur skyldur og þurfum að sýna ábyrgð og slíkt. Þarna er einmitt, eins og þingmaðurinn fór svo vel yfir, um allt annars konar starfsemi að ræða. Þarna erum við að leggja til sérfræðiþekkingu á málefnum sem varða þróunarmál, við erum með fólk á vettvangi sem hefur sérþekkingu til að sinna þessu. Þetta er eðlisólíkt því að vera með fólk á vettvangi sem er að gæta hagsmuna Íslands.

Mig langaði að spyrja þingmanninn út í það hvort innan nefndarinnar hafi verið farið eitthvað yfir það hvernig það er hugsað að við verðum með þróunarsamvinnu til lengdar. Það sem ég óttast og hef heyrt í umræðunni er að nú ætlum við að fara að líta til þróunarsamvinnu sem sé ekki síður að líta til hagsmuna Íslands, sem ég er algjörlega ósammála að eigi að vera markmið þróunarsamvinnunnar.