145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í þessu máli sem veldur svo miklum deilum á Alþingi ætla ég í seinni ræðu minni að halda áfram að fara yfir umsagnir sem hafa komið. Ég hafði áður fjallað um umsagnir sem komu frá starfsmönnum ÞSSÍ. Ég fór líka yfir og las umsögn frá Þróunarsamvinnustofnun þar sem fram kom í skipunarbréfi frá ráðherra: „… ég hef ákveðið að fela starfshópi …“, það var enginn valkostur. Starfshópurinn átti að vinna þetta ákveðna verk en engir möguleikar á því. Ég var byrjaður þegar minni fyrri ræðu lauk að fara yfir umsögn Rauða krossins. Ég ætla að halda því áfram núna og reyna að komast líka í umsögn Alþýðusambands Íslands sem ekki hefur verið fjallað um í nefndinni. Ég er mjög hissa og hef gagnrýnt það, og er meðal annars hluti af gagnrýni minni á þessa fljótaskrift og flumbrugang í nefndinni að rífa þetta út nánast á einum og hálfum sólarhring án þess að fara yfir og gera grein fyrir þeim athugasemdum sem hafa komið fram.

Rauði krossinn gerir nefnilega athugasemdir við sex eða sjö greinar frumvarpsins og leggur meira að segja fram tillögur, eins og oft er gert og margir gera sem veita umsögn. Þeir gagnrýna ekki bara heldur benda líka á það sem betur má fara og hvernig mætti orða hlutina. Þannig eiga umsagnir að vera. Það er tilgangurinn. Allir þeir fjölmörgu aðilar sem gefa nefndum Alþingis umsögn og leggja í það mikla vinnu verðskulda að fá að fylgja því eftir ef þeir óska þess eða ef þingmenn óska eftir að farið sé í gegnum það og að þeirri miklu vinnu þeirra sé sýnd virðing með því að fara yfir hana. Það er ekki gert með því að rífa mál út einum og hálfum sólarhring eftir að umsagnarfresti lýkur, eða sólarhring.

Rauði krossinn gerir heilmargar athugasemdir sem ég hef farið yfir. Ég held að ég hafi verið búinn að fara yfir athugasemdir þeirra við 1. gr. og var kominn að 2. gr. Um hana segir Rauði krossinn í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn leggur ríka áherslu á að stofnanaminni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og málefna þróunarsamvinnu glatist ekki. Lögð verði áhersla á að hlúa að starfsfólki á þann hátt að tryggt sé að reynsla þess og sérfræðiþekking glatist ekki, heldur nýtist í áframhaldandi og mikilvægu framlagi Íslands til þróunarsamvinnu.“

Það er engin trygging fyrir því þegar stofnun er lögð niður og starfsmönnum sagt upp, eins og ríkisstjórnin hefur samþykkt að gera og fram hefur komið í fyrsta frumvarpi þeirra eftir þessa samþykkt, þ.e. sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, og bjóða svo mönnum starf, í þessu tilviki í utanríkisráðuneytinu. Ég minni enn einu sinni á að frumvarpið um Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun var mjög harkalegt gagnvart starfsmönnum en meiri hluti nefndarinnar sá sér ekki annað fært en að flytja breytingartillögu þar sem hnykkt var á réttindum starfsmanna, að þau glötuðust ekki, að þekking glataðist ekki og menn héldu inni ákveðnum hlutum.

Í þessu sambandi ætla ég að minna áfram á að engin trygging er fyrir því að starfsmenn nýti sér þann biðlaunarétt sem þeir hafa. Hann getur verið misjafn eftir því hvenær menn voru ráðnir og í hvaða stéttarfélagi þeir eru. Það getur haft heilmikinn kostnað í för með sér sem ég gagnrýni að fjármálaráðuneytið í fjármálaumsögn sinni skuli ekki hafa nefnt einu orði.

Varðandi 4. gr. segir Rauði krossinn meðal annars, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn gerir hvorki athugasemdir við verkefni nefndarinnar né skipan hennar en hefur áhyggjur af því að nefndin muni ekki anna þeim verkefnum sem henni er gert að sinna nema að tryggt sé að nefndin fundi nægjanlega oft. Lágmarksfjöldi funda gæti mögulega komið fram í reglugerð eða í verklagsreglum nefndarinnar sjálfrar. Þá mætti vera skýrara hver afrakstur nefndarinnar á að vera.

Í athugasemdum við greinina er „talið mikilvægt að nefndin hafi á starfstíma sínum möguleika á að fara í vettvangsferð til að fylgjast með framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.“ Telur Rauði krossinn óraunhæft að svo stór nefnd fari í vettvangsferð til að fylgjast með framkvæmd verkefna enda yrðu slíkar ferðir dýrar og erfitt að réttlæta slíkan kostnað.“

Virðulegi forseti. Það er 15 manna hópur sem hér er gert ráð fyrir í frumvarpinu að geti tekið sér ferð á hendur til að fylgjast með hvernig gangi hjá okkur. Það er heldur ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Má gagnrýna það líka. Því má segja varðandi þau tvö atriði sem ég hef þegar nefnt, hugsanlegan biðlaunarétt og þessa ferð nefndarinnar, að þar er örugglega kominn aukakostnaður.

Um 6. gr. segir Rauði krossinn:

„Vakin er athygli á hlutfallslega lágu framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, samanber hér að ofan og í almennum athugasemdum.

Tillaga Rauða krossins:

Lagt er til að breytingar verði gerðar á 2. mgr. 6. gr. sem verði þá svohljóðandi:

Í stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu skal tilgreina áætlun um hvernig markmiðinu um að 0,7% af vergum þjóðartekjum verði náð með skýrum og áfangaskiptum tímasetningum. Á sama hátt skal tilgreina fyrirhugað hlutfall framlaga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum og hvernig þau skulu skiptast á grundvelli stefnumiða Íslands í þróunarsamvinnu.“

Má ég minna á í þessu sambandi hvað formaður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sagði þegar þær tillögur voru birtar með niðurskurði. Þar var sérstaklega talað um að framlög til þróunarsamvinnu yrðu skorin niður. Það er eðlilegt að Rauði krossinn hafi áhyggjur af þessu eins og við öll.

12. gr. er um breytingu á lögum um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu, nr. 73/2007, með síðari breytingum. Um hana segir Rauði krossinn, með leyfi forseta:

„Ekki eru gerðar athugasemdir við inntak 12. gr. frumvarpsins. Er þó vakin athygli utanríkismálanefndar á því að ekki er lengur að finna 3. mgr. 1. gr. núgildandi laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar á alþjóðlegum vettvangi. Núgildandi 3. mgr. 1. gr. er svohljóðandi:

Verkefni íslensku friðargæslunnar mega aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar- og mannréttindasamninga.“

Síðan er fjallað um hvenær þetta varð til o.s.frv. Rauði krossinn segir:

„Að mati Rauða krossins er sjálfsagt og eðlilegt að kveða á um það að borgaraleg friðargæsla brjóti ekki gegn alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist og telur mikilvægt að slíkt ákvæði verði áfram að finna í lögum um íslensku friðargæsluna. Sömuleiðis skuli hún taka mið af stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, samanber orðalag 2. mgr. 1. gr. laga nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.

Tillaga Rauða krossins:

Að bætt verði við 3. mgr. 12. gr. frumvarps þessa texta sem er svohljóðandi:

Verkefni íslensku friðargæslunnar skulu taka mið af stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og mega aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar- og mannréttindasamninga.“

Í lokaorðum segir Rauði krossinn meðal annars um 6. gr.:

„Þá vill Rauði krossinn vekja athygli utanríkismálanefndar á 6. gr. núgildandi laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar á alþjóðavettvangi enda þótt það sé ekki til umfjöllunar í frumvarpi þessu. Ákvæðið er svohljóðandi:“ — Og síðan er það listað upp.

„Telur Rauði krossinn mikilvægt að það sé skerpt á orðalagi og að fyrsta setning 6. gr. verði svohljóðandi:

6. gr. Íslenskir friðargæsluliðar skulu í störfum sínum lúta þeim þjóðréttarlegu reglum sem Ísland er skuldbundið af og réttaráhrif hafa gagnvart einstaklingum.“

Virðulegi forseti. Tími minn er að verða búinn en ég hef farið á tíu mínútum yfir þær athugasemdir sem Rauði krossinn gerir við frumvarpið. Ég vil spyrja, því að formaður nefndarinnar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir og 1. varaformaður, Silja Dögg Gunnarsdóttir, eru hér: Var farið yfir öll þessi atriði 14. eða 15. október frá Rauða krossinum? Komst meiri hluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að taka ekki tillit til neins af þessu? Var það allt vitleysa sem Rauði krossinn setti fram? Eða var farið yfir þetta og af hverju er ekki getið um það?

Í lokin vil ég nefna umsögn ASÍ sem gagnrýnir þetta mjög og segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Það kemur hvergi fram (Forseti hringir.) að ástæða sé til þess að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður, heldur þvert á móti er áhersla lögð á að styrkja tengsl ÞSSÍ og utanríkisráðuneytis.“

Lokaorð mín skulu vera þessi: (Forseti hringir.) Þetta er vont mál sem á að taka til nefndar og reyna að skapa þverpólitíska sátt um það ef þarf að gera breytingar á þessu frekar en að afgreiða þetta mikilvæga mál í þeim mikla ágreiningi sem er okkur til skammar, og horfi ég nú á ráðherrabekkinn.