145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hægri stjórnin hefur kveinkað sér undan því að vera kölluð ríkisstjórn ríka fólksins og reynt að færa rök fyrir því að það sé nú ekki rétt, þeir geri ekki bara góða hluti fyrir ríka fólkið heldur líka fyrir fátæka fólkið og ekki síst fyrir millistéttina.

En í þessu fjáraukalagafrumvarpi er 600 millj. kr. skilað í ríkissjóð sem ætlað var til að jafna stöðu barnafjölskyldna í samfélaginu og Alþingi samþykkti hér breytingar á barnabótum sem áttu að koma til móts við barnafjölskyldur vegna hækkunar á matarskatti. Það var milljarður sem bætt var í til að koma til móts við barnafjölskyldur en aðeins 400 millj. kr. gengu út og 600 fóru bara aftur í ríkissjóð og engum viðmiðum breytt í bandorminum á móti.

Síðan vorum við minnt á það í ræðu fyrr í dag, í ræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að 400 millj. kr. voru einnig lagðar til mótvægis við matarskatt sem áttu að koma til hækkunar á húsaleigubótum. Þær hafa ekki verið borgaðar út. Þarna getum við sagt að það sé verið að blekkja fólkið í landinu með mótvægisaðgerðum við hærra matarverði vegna skattbreytinga og svo þegar kemur að fjáraukanum þá er nánast öllu kippt til baka; þarna er milljarður sem fer til baka af þeim 1,4 sem áttu að fara í mótvægisaðgerðirnar. Ég vil spyrja hv. þingmann út í þetta og hvort honum finnist þetta vera sanngjarnt og eðlilegt.