145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Við tölum auðvitað um það frá ári til árs hvernig skattstefnan kemur út og það eru ákveðnar aðgerðir, eins og hv. þingmaður þekkir, undirliggjandi sem geta líka haft áhrif á hvernig staða fólks er hverju sinni. Ég hef áhyggjur af því. Thomas Piketty og fleiri, og vitnað er í rannsóknir frá Cambridge-háskóla hafa sagt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að það er ýmislegt sem hefur áhrif á það ár hvert. Ég hef áhyggjur af því að þetta haldi ekki, þ.e. sú skattstefna sem rekin er ásamt öðrum þeim aðgerðum sem hafa orðið til einhverra tiltekinna hluta, eins og það að breyta stöðunni í þá sem hún var á síðasta ári, ég er ekki jafn sannfærð um að þetta ár eða næsta komi jafn vel út og það endurspeglast væntanlega meðal annars af þeim aðgerðum sem hér hafa verið gerðar.

Við vitum líka að jöfnunin skilar sér á einhverjum X-löngum tíma. Við þurfum að horfa yfir lengra tímabil en kannski bara eitt ár þegar við horfum á stefnubreytingar í skattamálum. Og þegar menn segja, hafa kallað brauðmolakenninguna eða eitthvað slíkt eða þá að eitt skattþrep sé ekki til þess fallið að jafna kjör, þá höfum við trú á því að það sé þannig og það er það sem öryrkjar og eldri borgarar benda á að sú aðgerð sem farið var í gagnist ekki þeim sem lægstar hafa tekjurnar, ef við erum að horfa til þess og við höfum viljað horfa svolítið til þess núna. Við teljum að við eigum að staldra við þar núna. Það þýðir þá það að þeir bera minna úr býtum í gegnum skattstefnuna en þeir mundu gera ef þrepaskiptingin hefði verið með öðrum hætti en hún er núna. Það eru ýmsar undirliggjandi breytur sem hafa áhrif á hverju ári þannig að við skulum skoða þetta yfir lengra tímabil og sjá.