145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:40]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér stóð áðan málþófsdrottning síðasta kjörtímabils, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, og lýsti mikilli vandlætingu yfir því sem hún kallar málþóf í þessum þingsal. Hér fyrir utan húsið standa núna tugir öryrkja og eru að minna með hljóðri viðveru sinni þingheim á ábyrgð sína gagnvart afgreiðslu fjárlaganna meðal annars. Og þótt það nú væri að við ræddum fjárlögin að minnsta kosti til miðnættis. En það er fráleitt að ætla að halda því fram að við séum hér í málþófi þegar við ræðum ráðstöfun ríkisfjármuna upp á 600–700 milljarða kr., ríkisfjárlög sem skilað var í fyrstu atrennu með 20 milljarða afgangi, sem eru nú orðnir 15 milljarðar. Við eigum ýmislegt aflögu, (Forseti hringir.) en þessi ríkisstjórn er ekki tilbúin að veita (Forseti hringir.) öryrkjum og öldruðum eðlilegar mannréttindaleiðréttingar frá sama tíma sem við tökum sjálf við okkar leiðréttingum, 6 milljarðar.