145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að þegar kemur að umræðum um lengd þingfundar og hvernig þingstörfunum skuli háttað, þá eru þeir almennt hlynntir löngum þingfundum sem ekki virðast taka mikið mark á rökum eins og þeim að fólk þurfi að sofa áður en það þarf að mæta í nefnd daginn eftir. Nú skil ég vel hversu freistandi það er að stæra sig af því að vakna snemma og vinna lengi og vera alltaf til í að vinna heila sólarhringinn eða eitthvað þannig en það breytir því ekki að það er ekki skynsamlegt fyrirkomulag. Það er ástæða fyrir því að hinn almenni vinnumarkaður virkar ekki þannig, bæði vegna kjarabaráttu í gegnum söguna og vegna þess að það er einfaldlega ekki skynsamlegt. Það er ekki skynsamlegt að vera á þingfundi til kl. 3 um nótt og fara síðan í nefnd kl. 8.30 daginn eftir. Það er ekki skynsamlegt upp á afköst, það er ekki skynsamlegt upp á einbeitingu, það er ekki skynsamlegt að neinu leyti. En með því fyrirkomulagi sem við höfum hér virðist því miður vera nauðsynlegt að hafa þetta svona.

Sú staðreynd að þetta er bæði óskynsamlegt og ónauðsynlegt segir okkur eitt, að þingstörfin eru ekki í lagi. Enginn ætti að vera hissa yfir þeirri stöðu sem er komin upp núna og þó hefur hún oft verið erfiðari í gegnum tíðina. Í raun og veru er ekkert sérstakt á ferðinni nema að því leyti að það er óvenjurólegt ef eitthvað er, miðað við það sem ég hef þurft að kynnast hér á mínum stutta ferli. Og vissulega rólegt miðað við stöðuna á síðasta kjörtímabili þótt aðstæður þá hafi auðvitað verið skiljanlegri, eftir hrun og allt það.

Ég legg til að þar sem við erum sífellt að deila um hluti eins og lengd þingfundar, um hluti sem ættu ekki að vera deiluatriði, þá förum við að skoða dýpra hvernig við vinnum hérna. Þetta er ekki spurning um þá stórmerkilegu tilviljun að akkúrat 60% þingsins séu annaðhvort æðisleg eða ömurleg og akkúrat 40% þingsins séu annaðhvort æðisleg eða ömurleg. Þetta er dýpra vandamál en það. Þetta er kerfislægt vandamál sem varðar þingsköp og að ég vil meina stjórnarskrá. Við eigum að líta þangað eftir lausnum á þessu vandamáli.


Efnisorð er vísa í ræðuna