145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:50]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú erum við í 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl. Á ýmsu hefur gengið í þeirri umræðu og ef ég á að segja alveg eins og er skil ég ekki enn hvers vegna málið hefur tekið allan þennan tíma í meðförum þingsins. Frumvarpið kom til þingsins á síðasta þingi. Við náðum ekki að afgreiða málið þá vegna þess að stjórnarandstaðan kaus að hertaka það. Að lokum var gert samkomulag um að málið yrði afgreitt í september þegar þing hæfist að nýju. Því miður stóð stjórnarandstaðan ekki við gerða samninga og þóttist ekkert kannast við þá. Þrátt fyrir að frumvarpið hefði verið rætt langtímum saman um vorið og kæmi nánast óbreytt aftur inn í þingið ákvað stjórnarandstaðan að hertaka málið öðru sinni. Hið sama var uppi á borðinu í nefndarstörfum utanríkismálanefndar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru fram á að 24 umsagnarbeiðnir yrðu sendar út aftur þrátt fyrir að aðeins fjórir aðilar hefðu sent inn umsögn á síðasta þingi. Hv. formaður utanríkismálanefndar varð við þeirri beiðni og gaf fullan umsagnarfrest, sem fyrr. Ekkert nýtt kom fram í umsögnunum.

Málið var rætt ítarlega í utanríkismálanefnd. Allir gestir sem óskað var eftir komu fyrir nefndina. En hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni virtist vera það kappsmál að klára ekki málið og fór til dæmis fram á það 15 mínútum fyrir nefndarfund, þegar nokkrir gestir voru á leiðinni á fundinn að hans beiðni, að sá fundur yrði afboðaður hið snarasta þar sem hann ætlaði að hlusta á ræðu forseta Íslands við setningu Arctic Circle-ráðstefnunnar í Hörpu. Við því var ekki orðið þar sem fyrirvarinn var mjög skammur og gestir gátu ekki komið á öðrum tíma. Fundurinn var því haldinn, gestirnir mættu og málið var síðan tekið úr nefndinni þegar ljóst varð að samkomulagi yrði ekki náð í nefndinni um málið, því miður.

Umræður hófust að nýju í þingsal. Flestallir þingmenn stjórnarandstöðunnar tjáðu sig um málið, sumir af þekkingu, aðrir ekki. Ég er ekki búin að taka saman í hvað margar klukkustundir málið var rætt á yfirstandandi þingi en þær voru ansi margar. Maður velti því fyrir sér hver tilgangurinn með umræðunni var. Var hann sá að reyna að varpa nýju ljósi á málið, koma fram með nýjar röksemdir sem ekki höfðu heyrst áður eða var eini tilgangurinn að reyna að halda því sem lengst inni í þinginu svo að ekki næðist að klára það fyrir jól? Ég vil varla trúa því síðastnefnda því að ef svo er eru þingmenn stjórnarandstöðunnar vísvitandi að skaða þingið að mínu mati. Í fyrsta lagi með því að koma í veg fyrir að mikilvæg mál fáist rædd og afgreidd hjá þinginu og í öðru lagi með því að styrkja neikvæða ímynd Alþingis.

Við hljótum að geta gert betur en þetta, hagað okkur eins og fólk, rætt málin af skynsemi, efnislega, en ekki bara tala til að tala og tefja. Ætluðum við, nýja fólkið, ekki að breyta þessu? Erum við komin á sama stað og gömlu refirnir sem við ætluðum ekki að líkjast? Lét stjórnarandstaðan gamlan ref stýra sér í þessu máli? Ég vona ekki.

Svo að ég haldi áfram að fara yfir málsmeðferðina þá var málið tekið aftur inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. til að koma aftur til móts við óskir stjórnarandstöðunnar í því skyni að skoða málið enn betur og afgreiða það síðan að lokinni fjárlagaumræðu. Um það var samið. Tilgangur inntöku í nefndina var aðallega að skoða betur hugmynd um ráðuneytisstofnun, eins og fram hefur komið, og þekkingarsjónarmiðið, þ.e. hvort sérþekking mundi hugsanlega þynnast út með þessari skipulagsbreytingu. Einnig höfðu menn miklar áhyggjur af því að meðferð fjármuna og framkvæmd verkefna yrði ógagnsærri ef frumvarpið næði fram að ganga. Fjórir fundir voru haldnir í utanríkismálanefnd til að skoða þessa þætti betur. Á þeim fundum kom fram að hugmyndin um ráðuneytisstofnun hefði verið skoðuð lauslega hjá starfshópnum sem samdi frumvarpið en verið lögð til hliðar þar sem hún samræmdist ekki markmiðum frumvarpsins, þ.e. að ná meiri krafti, sveigjanleika og samhæfingu í málaflokkinn frá því sem nú er. Menn vilja sem sagt styrkja tengsl þróunarsamvinnu við önnur verkefni ráðuneytisins, samræma og koma í veg fyrir tvítekningu, eins og kom meðal annars fram í máli hæstv. ráðherra hér í dag. Óljóst er hver ávinningurinn yrði með slíkri ráðuneytisstofnun. Auk þess kom fram að þó að menn vildu á einhverjum tímapunkti fara þá leið að ráðuneytisstofnun mundi ramma inn málaflokkinn í utanríkisráðuneytinu þá stæði núverandi frumvarp samt sem áður óbreytt vegna þess að það er ekki löggjafans að ákveða innra skipulag ráðuneyta. Ráðuneytisstofnun er eingöngu skipulagsvalkostur fyrir ráðherra. Við getum þrætt um þetta endalaust en svona er þetta.

Írar hafa til dæmis farið þessa leið, en aðrar þjóðir eru með þróunarsamvinnuverkefnin í utanríkisráðuneytum sínum. Danir eru síðan með einn eina útfærsluna, þeir eru ekki með sérstaka deild um málaflokkinn heldur skipta þeir verkefnum í ráðuneyti sínu eftir landsvæðum.

Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar varð sú að ráðuneytisstofnun, þ.e. írska leiðin, væri ekki eitthvað sem ætti heima í frumvarpinu og tók því ekki undir breytingartillögu minni hlutans í nefndinni. Nefndin fór ítarlega yfir fjármálahliðina eins og fyrr segir. Sumir þingmenn höfðu áhyggjur af því að meðferð fjármuna yrði mun ógagnsærri ef þróunarverkefni ÞSSÍ færu inn í ráðuneytið. Í ljós kom að sá ótti var með öllu óþarfur.

Áður en lengra er haldið ætla ég að útskýra lauslega hvernig fyrirkomulag þróunarsamvinnuverkefna af Íslands hálfu er í dag og meðferð fjármála. Þróunarsamvinnusvið utanríkisráðuneytisins er með starfsemi á 2. hæð í húsnæði utanríkisráðuneytisins. ÞSSÍ er með starfsemi á 4. hæð í sama húsi. Starfsmenn ÞSSÍ og þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytisins vinna að hluta til að sömu verkefnum. Þeir vinna því saman daglega og samkvæmt sömu ferlum. Öllum sem fara með ríkisfé ber að gera það markvisst og Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með fjármálum allra aðila. Utanríkisráðuneytið er ábyrgt fyrir fjármálum ÞSSÍ gagnvart Ríkisendurskoðun. Margoft hefur komið fram í umræðunni að fjármálum ÞSSÍ hefur verið afar vel stýrt og hið sama gildir um fjármál utanríkisráðuneytisins. Þessar upplýsingar komu ítrekað fram á fundum nefndarinnar.

Menn hafa líka nefnt að stýring verkefna verði mögulega ógagnsærri ef Þróunarsamvinnustofnun færist inn í utanríkisráðuneytið. Eftir ítarlega yfirferð um þann lið hefur komið í ljós að svo er ekki. Ríkt eftirlit er með þróunarsamvinnuverkefnum, bæði hjá utanríkisráðuneytinu og ÞSSÍ. Allir aðilar starfa samkvæmt stefnu um þróunarsamvinnu sem samþykkt er á Alþingi. Verkefni ráðuneytisins eru tvíhliða þróunarverkefni sem unnin eru í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir, svo sem Sameinuðu þjóðirnar og undirstofnanir. Verkefni ÞSSÍ eru marghliða þróunarverkefni sem einnig eru unnin í samstarfi við ýmsa aðila. Stundum skarast verkefni ráðuneytisins og ÞSSÍ og hefur það valdið ruglingi hjá erlendum samstarfsaðilum. Í öllum tilfellum sem snúa að þróunarsamvinnu er unnið samkvæmt mjög stífum ferlum frá DAC. Eftirlitið er gott, úttektir eru gerðar reglulega og öll gögn eru birt opinberlega á heimasíðu ráðuneytisins og/eða heimasíðum þeirra stofnana sem unnið er með hverju sinni. DAC rýnir auk þess reglulega starfsemi þróunarsamvinnuverkefna, bæði hjá ráðuneytinu og hjá ÞSSÍ. Stýrihópurinn, sem eftirlit hefur með öllum þróunarsamvinnuverkefnunum, hittist reglulega þannig að ráðuneytið hefur nú eftirlit með ÞSSÍ. Ráðuneytið er líka ábyrgt fyrir skilum á fjárhagsgögnum frá ÞSSÍ til OECD. Samkvæmt núgildandi lögum leggur hæstv. utanríkisráðherra reglulega fram skýrslu til Alþingis um árangur af þróunarsamvinnuverkefnum. Að þessu sögðu er ljóst að fjármála- og verkefnisstjórn mun ekki verða ógagnsærri með færslu ÞSSÍ inn í þróunarsamvinnudeild utanríkisráðuneytisins.

Annað atriði sem ég vil nefna er starfsmannamálin. Fram hefur komið að öllum starfsmönnum ÞSSÍ verði boðin sambærileg störf hjá ráðuneytinu. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins eru með flutningsskyldu, þ.e. menn eru fluttir á milli starfsstöðva, en þó er alltaf horft til bakgrunns starfsmanna, þekkingar hans, reynslu og færni. Hið sama gildir um starfsfólk ÞSSÍ. Það eru því afar litlar líkur á því að til dæmis sérfræðingur í þróunarsamvinnu verði sendur á starfsstöð til að gegna stöðu sérfræðings í öryggismálum, svo eitthvað sé nefnt. Ég tel því að sérþekking muni varðveitast og flutningsskyldan ógni alls ekki þekkingunni, nema síður sé. Ég vil bæta því við að menn eru mjög meðvitaðir um hve verðmætur þekkingarþátturinn er. Maður heyrði það á fundum nefndarinnar, bæði frá starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar og ráðuneytisins. Fólk veit það. Fólk vinnur líka í þróunarsamvinnuverkefnum í ráðuneytinu.

Við skoðuðum starfsmannamál mjög ítarlega og fórum meðal annars yfir breytinguna sem varð 1. júlí 1996, þ.e. hvað varðar þá sem voru ráðnir fyrir og þá sem voru ráðnir eftir. Nefndin fékk minnisblað þar um en ég ætla að láta þar við sitja í bili.

Hvað flutningsskylduna varðar er hún að mínu mati mjög jákvæð fremur en neikvæð. Starfsmenn fá aukin tækifæri til starfsþróunar, eins og fyrr segir, og hverju sinni er valið í störf út frá færni, þekkingu og reynslu. Starfsfólk mun geta aflað sér endurmenntunar sem fyrr. Ráðuneytið styður eindregið að fólk sæki sér menntun sem tengist starfinu á vinnutíma og fái styrk til þess.

Ég hef nú rakið stuttlega feril málsins og þau atriði sem hafa verið hvað umdeildust. Að lokum langar mig til að segja að við erum öll sammála um að við eigum að gera vel í þróunarsamvinnu. Við eigum ekki að eyða meiri tíma en orðið er í að velta okkur upp úr því með hvaða hætti formið eigi að vera. Við eigum fyrst og fremst að sinna verkefnunum vel. Markmið fyrirliggjandi frumvarps utanríkisráðherra snýst akkúrat um að gera vinnuna enn betri, ekki endilega að spara peninga heldur nýta þá peninga sem við leggjum í þessi verkefni betur og með markvissari hætti og nýta mannauðinn betur.

Við erum í 3. umr. núna og erum búin að taka málið inn í nefnd í millitíðinni. Þar átti sér stað góð umræða eins og fram hefur komið. Ég vona að við förum að komast að þeim punkti að greiða atkvæði um málið í þinginu og að við getum klárað hin afar mikilvægu húsnæðismál sem liggja fyrir þinginu og eru á dagskrá þingsins í dag og komið þeim til nefndar vegna þess að þau eru svo sannarlega stóru málinu. Engu að síður verðum við að klára þetta mál. Við getum ekki dregið það lengur eftir að hafa verið með málið á síðasta þingi og í umsjá þingsins frá því í haust. Við hljótum að vera að komast á leiðarenda, alla vega fljótlega.