145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessum mínútum okkar hafi verið vel varið í þessi andsvör. Þetta er þá alveg á hreinu að þær reikningskúnstir sem ég tel að þingmaðurinn kalli réttilega svo koma frá hv. fjárlaganefnd. Reikningskúnstir hv. fjárlaganefndar koma mér almennt ekki á óvart og síst af öllu í þessum málaflokki vegna þess að forustumaður þeirrar nefndar hefur náttúrlega sýnt af sér að sá málaflokkur er ekki henni mjög að skapi og vakti það sérstaka athygli þegar hún greiddi hér ein atkvæði á móti hækkun í þennan málaflokk fyrir nokkrum árum.

En mig langar samt sem áður aðeins að halda áfram með þetta á öðrum nótum. Ég er alveg þeirrar skoðunar að þessar tölur sé ekki hægt að leggja saman og ekki hægt að kalla þróunarhjálp eða þróunarsamvinnu, en á hinn bóginn er það þannig í mínum huga, einmitt vegna þess hvernig aðstæður eru í heiminum í dag að þá skiptir svo miklu máli að þróunarsamvinnan fái það fjármagn sem hún þarf vegna þess að það gæti þá hugsanlega dregið úr flóttamannavanda í heiminum. En það er önnur hlið. Ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé sami peningurinn. En ef þetta er sami peningurinn er það alla vega allt önnur hlið.