145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að ég tek undir hvert orð flokkssystur minnar hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur í þessu máli. Hún hefur ráðherrareynslu eins og ég hafði í þrjú ár og við þurftum á erfiðleikatímum að grípa til ýmissa ráðstafana, skera niður. Sá sem hér stendur fór í að sameina stofnanir og gerði það á mjög faglegan hátt þar sem myndaðir voru vinnuhópar og farið í gegnum málin. Mikil vinna og samstarf var við starfsmenn sem meðal annars var kvartað mjög mikið yfir við sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.

Þá er spurning mín þessi til hv. þingmanns: Kveður hér ekki við algerlega nýjan tón? Hér virðist ekki vera neitt atriði að gera þetta í samvinnu og sátt við starfsmenn. Hér er göslast áfram. Í raun og veru fara menn um eins og naut í flagi, samanber hið dæmalausa minnisblað ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar síðastliðnum þar sem ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að við sameiningu lítilla og meðalstórra stofnana, og reyndar kannski allra, ætti vinnureglan að vera sú að segja upp öllum starfsmönnum.

Getur verið að við það að gera þetta þannig kunni að koma til meiri biðlaunaréttur og freisting til þess til að fara þá leið sem ég hef mjög verið að gagnrýna, leið utanríkisráðherra, að þá verði til aukinn kostnaður? Fram kom í svari við fyrirspurn hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur til allra ráðherra að kostnaður við skýrslugerð við vinnu eins manns í skýrslugerðinni var 9 millj. kr. Á fundi nefndarinnar spurði ég út í frekari kostnað og þar kom fram að alls konar aukakostnaður eins og ferðakostnaður og fleira væri um 1,7 millj. kr. þannig að heildarkostnaður var tæpar 11 millj. kr. (Forseti hringir.) við þessa skýrslugerð. Er ekki örugglega aukakostnaður þarna inni sem ekki er rætt um, sem mundi falla til vegna þessa?