145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki léð máls á því að koma á nokkurn hátt til móts við eða viljað taka til greina þær tillögur sem minni hluti hv. utanríkismálanefndar hefur lagt fram við 3. umr. Hæstv. ráðherra virðist vera algjörlega sama um að djúpstæð gjá sé á milli meiri hluta og minni hluta á Alþingi. Miðað við þátttökuna í þessari umræðu og þann fjölda sem hefur verið í þingsal af hálfu stjórnarmeirihlutans þá hef ég því miður ekki mikla von um að áhugi sé á því að samþykkja þá sáttatillögu sem minni hlutinn í hv. utanríkismálanefnd hefur lagt fram, sáttatillögu sem gengur mjög langt í þá átt að teygja sig að vilja ráðherrans og teygir sig reyndar svo langt að mörgum okkar finnst það nálega erfitt en við vorum engu að síður tilbúin til þess að setja nafn okkar við vegna þess að við teljum málaflokkinn svo mikilvægan að okkar ýtrustu kröfur séu ekki aðalatriðið heldur að gera málaumbúnaðinn sem allra bestan miðað við það að uppi séu gríðarlega ólík sjónarmið.

Ég fæ ekki betur séð en að það verði skilið við þetta mikilvæga mál í miklu ósætti á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það finnst mér gríðarlega dapurlegt því að þróunarsamvinna er verkefni sem mun því miður bara verða mikilvægara, að því er ég tel, á komandi árum. Þess vegna þurfum við að hafa þetta í sem allra bestu horfum.

Hæstv. forseti. Ég vil því aftur lýsa yfir vonbrigðum mínum með það hvernig umræðan hefur farið hér í dag. Það er náttúrlega smávon eftir þegar kemur að atkvæðagreiðslunni, en ég hef ekki nógu góða tilfinningu fyrir því hvernig hún fer. Það finnst mér miður.