145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr mig: Hverjar eru hugsanlegar málamiðlanir í þessu máli? Það hefur komið fram í máli þeirra sem standa að tillögunni ásamt mér að þau telja jafnvel fulllangt gengið með þessari málamiðlun. Ég tel að í stöðunni sé rétt af okkur að stíga svona langt. Við höfum sömuleiðis sagt algjörlega skýrt að ótti okkar við að sérhæfing og reynslusjóður ÞSSÍ glatist er helsta ástæða okkar fyrir því að við erum málinu svona harkalega andsnúin. Þarna deilum við viðhorfum með höfundi skýrslunnar sem var lögð til grundvallar þessu frumvarpi. Hann talar um að það sé hætta á að stofnanaminnið glatist og ef mikið er um flutning á starfsmönnunum út og inn úr geiranum geti, eins og hann segir, þekkingin útvatnast fljótt. Ég hef sagt að það skipti miklu máli í þessum efnum að þetta viðhorf sé virt. Kannski er það rangt viðhorf, kannski hefur ráðherrann rétt fyrir sér, en hann er þá á annarri skoðun en við Þórir Guðmundsson. Einn möguleiki að sátt í þessu efni væri vitaskuld að fyrir lægi að starfsfólkið sem væri í þessum geira og kemur inn í ráðuneytið með þessari lagabreytingu væri ekki orpið undir flutningsskylduna. Það skiptir töluverðu máli.