145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem við greiðum hér atkvæði um ætti að vera tækifæri og tilefni til þess að hagræða í ríkisrekstri. Það er hins vegar ekki nóg að samþykkja þessa tillögu, það þarf að fylgja henni eftir. Ég sakna þess í umræðunni um þessi mál og önnur að menn skuli ekki ræða þau mál.

Sömuleiðis skil ég ekki af hverju í ósköpunum menn ræða ekki um hlutina eins og þeir eru. Það er búið að auka gríðarlega mikið framlög okkar, bæði hlutfallslega og í tölum, til þróunaraðstoðar. Hv. þingmaður hér á undan sagði að þetta væri bara það sem sneri að hælisleitendum, en það er þróunaraðstoð. Reyndar getum við sagt að norrænu ríkin séu að spara hefðbundna þróunaraðstoð á móti framlögum til hælisleitenda. (Gripið fram í: Það er líka …) Ég veit ekki af hverju í ósköpunum við höfum ekki reiknað þessa hluti rétt, en eins og hæstv. ráðherra sagði (Gripið fram í.) erum við að fara með þetta verulega upp hlutfallslega og það á að ræða þessa hluti (Forseti hringir.) út frá því. Alveg sama hvað mönnum finnst um hversu mikið á að vera eiga menn að ræða þessa hluti eins og þeir eru og bóka þá eins og þeir eru.