145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið sérkennileg að mínu viti. Sjaldan hef ég fundið jafn litla sannfæringu fyrir nokkru máli hér í þingsal, sjaldan hef ég fundið fyrir jafn lítilli baráttugleði hjá nokkrum stjórnarmeirihluta í máli og það vekur manni auðvitað efasemdir um að það sé mikil sannfæring á bak við þá breytingu sem hér er þó verið að samþykkja. Manni sýnist sem hér sé verið að keyra málið í gegn í krafti meiri hluta án sérstakrar sannfæringar en ég ítreka það sem ég sagði áðan, með þessari breytingu sem stjórnarmeirihlutinn er að samþykkja er hann að undirstrika áhugaleysi sitt um gríðarlega mikilvægan málaflokk. Það eru mér mikil vonbrigði að sjá hvernig þessi meiri hluti hefur haldið á bæði framlögum til þróunarsamvinnu og umgjörðinni um hana.

Þetta eru mér mikil vonbrigði og ég segi nei við þessu máli.