145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég dreg til baka að hv. stjórnarandstæðingar komi aldrei með neinar sparnaðartillögur. Við þurfum að skoða sparnaðartillögu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um að sameina Vegagerðina og ráðuneytið.

Ég skil ekki þessa hugsun, (Gripið fram í.) ég mundi ætla að ef menn væru í alvöru að hugsa um að nýta þróunaraðstoð vildu menn spara í stjórnsýslunni. Þetta hlýtur að vera leið til þess. Til þess hljóta menn að fara í þessa vegferð. (Gripið fram í.) Það hefur verið gríðarleg aukning bæði í tölum og hlutfallslega í þessu fjárlagafrumvarpi hvað varðar þróunaraðstoð. Af því að við erum með þróunaraðstoð til ESB af einhverjum ástæðum tel ég að við ættum að nýta hana í auknum mæli til að hjálpa fátækustu þjóðum. Ég vona að það sé stuðningur við það á hv. Alþingi, en við skulum ekki gleyma því að eitt sinn vorum við í þeirri stöðu að vera fátækasta þjóð Vestur-Evrópu. Við hefðum (Forseti hringir.) aldrei átt möguleika á að vinna okkur út úr því nema með því að fá aðgang að öðrum mörkuðum. Besta þróunaraðstoðin er fríverslunarsamningarnir og ég vonast til að það sé samstaða um að við aukum fríverslun í heiminum en förum ekki að loka okkur í tollabandalagi. (Gripið fram í.)