145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að nefna hvað varðar síðustu ríkisstjórnir og stjórn ríkisfjármála að þegar hrunið skall á höfðu verið greiddar mjög niður skuldir íslenska ríkisins. Ríkissjóður Íslands var mjög skuldléttur og þess vegna í allt annarri stöðu en ríkissjóðir flestra annarra vestrænna ríkja til að bregðast við þessum áföllum.

Það er ekki rétt sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði áðan, að einungis hefði verið horft á einhverjar froðutekjur sem vissulega voru vandamál hér og ekkert gert í þessari stöðu. Skuldirnar voru greiddar niður, það er mikilvægt að halda því til haga, virðulegi forseti, en það er alveg rétt að í fjárlögunum fyrir árið 2008, fyrstu fjárlögum ríkisstjórnarinnar sem kom til valda 2007, ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, varð gríðarleg aukning í ríkisútgjöldum. Það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Svo tek ég undir það sem hér hefur verið sagt, það er skiljanlegt að ef hér þarf að ræða um orðfæri (Forseti hringir.) er kannski ekki alveg sanngjarnt að skamma formann Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, fyrir það sem hér var sagt þegar upphaf málsins er hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.