145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:30]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni á milli öfgahægristefnunnar og öfgavinstrisinna þar sem menn keppast um að kalla hverjir aðra dólga og koma með stóryrði. Staðreyndin er hins vegar sú að miðjustefnan hefur orðið ofan á og það er gott, (Gripið fram í.) okkur hefur tekist að lækka álögur á almenning og hækka framlög til velferðarmála sem ég held að sé nákvæmlega það sem við viljum öll inn við beinið, ekki satt?

Mig langar aðeins að rifja upp söguna ef ég má vegna þess að hv. þm. Árni Áll Árnason gleymir því að Samfylkingin var með stjórnartauminn árið 2007 þegar ríkisútgjöldin voru aukin um 20% og olía sett á eld mikillar þenslu og ég held að það hafi verið dropinn sem fyllti mælinn hvað varðar þenslu ríkissjóðs. Svo held ég að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eigi líka að rifja upp þau markmið sem síðasta ríkisstjórn setti sér í riti (Forseti hringir.) fjármálaráðuneytisins, markmið sem þóttu frekar lágstemmd en ríkisstjórninni tókst aldrei nokkurn tímann að komast nálægt.