145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér eru áfram á ferðinni áform hæstv. ríkisstjórnar, sem verða ekki áform öllu lengur, um að fletja út skattkerfið og fækka skattþrepum. Okkur er sagt að það sé verið að fella niður miðþrepið. Hver er kosturinn við að hafa þrjú þrep og hvernig er hægt að nýta sérstakt þrep sem tekur mið af lægstu launum í landinu? Jú, það er hægt að nýta það eins og var gert á síðasta kjörtímabili til að hlífa sérstaklega tekjulægsta hópnum við skattgreiðslum. Úrræðunum fækkar í tekjuskattskerfinu ef slíkt þrep hverfur. Þegar frá líður mun þetta leiða til þyngri skattbyrði á lægri og meðallaun nema menn vilji fara að reka ríkissjóð aftur með halla sem kann að vera að hæstv. fjármálaráðherra og stjórnarliðinu þyki allt í lagi.

Þetta eru ekki breytingar til góðs, hvorki frá sjónarhóli ábyrgra ríkisfjármála né sjónarhóli jöfnuðar í þessu landi. Þetta er sorgleg afturför, og aum er ganga Framsóknarflokksins að elta alltaf Sjálfstæðisflokkinn í þessum efnum. (VigH: … þínum flokki.) Kannski á maður ekkert að vera hissa þegar tveir hægri flokkar ná saman, eða hægri flokkur og hentistefnuflokkur, að þetta verði útkoman. (Forseti hringir.) Sagan fer að kenna manni það.