145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða í dag og síðustu daga hefur að mestu leyti snúist um það hvort ríkisstjórnin vilji fallast á að styðja tillögu stjórnarandstöðunnar um það að greiða afturvirkar bætur til aldraðra og öryrkja. Hv. þm. Karl Garðarsson flutti hér um daginn prýðilega ræðu um margvísleg málefni fjárlaga ríkisins og sagði m.a. að aldraðir væru lágvær hópur sem ætti erfitt með að koma fram sínum málefnum eða láta hlusta á sig. Það er algjörlega hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er einmitt þess vegna sem auðvelt er að gera aldraða og öryrkja að afgangsstærð. Sérhver ríkisstjórn verður að varast þá freistni að feta þann stig að nota þá til þess að jafna bækurnar. Sumum hefur tekist það, sumum ekki. Mér finnst að þessari ríkisstjórn hafi tekist það ákaflega illa upp. Auðvitað er ég sannfærður um að það er fullt af mönnum og konum innan stjórnarliðsins sem meinar það þegar þau segja að þau vilji bæta hag þessa hóps, vilji í reynd leggja sitt af mörkum til þess að jafna mun þeirra gagnvart ýmsum öðrum. En staðreyndirnar í dag tala allt öðru máli. Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir nokkrum grundvallarstaðreyndum sem varða þennan slag.

Þegar hv. þm. Karl Garðarsson segir að þetta sé lágvær hópur sem eigi erfitt með að koma ár sinni fyrir borð þá skiptir það að minnsta kosti máli að hann eigi málsvara á Alþingi Íslendinga. Ég segi fyrir sjálfan mig nú þegar við erum að ræða fjáraukalög og eigum eftir að taka 3. umr. um fjárlagafrumvarpið að þá finnst mér að hér á Alþingi Íslendinga eigi að taka góðan eldhúsdag um stöðu þessara mála, hvað ríkisstjórnin hefur gert og hvað hún hefur ekki gert. Það sem mér hefur mislíkað mjög hjá mönnum úr liði stjórnarinnar í þessari umræðu er að þeir koma hér, berja sér á brjóst og stæra sig af því að hafa gert einhver sérstök ósköp fyrir aldraða og öryrkja. Á sama tíma nota þessir hv. þingmenn ræður sínar til þess að sparka í fyrri ríkisstjórn, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem tók við gjaldþrota ríkissjóði þar sem fossuðu út 217 milljarðar í einu vetfangi þegar tekjustofnar ríkisins brugðust. Svo koma menn eins og hv. þm. Karl Garðarsson og ýmsir aðrir og segja: Ja, hvað gerðuð þið? Hvað hefði hv. þm. Karl Garðarsson gert í þeirri stöðu? Þessu er ekki saman að jafna.

Þó vil ég geta þess til að vera ærlegur að hv. þm. Karl Garðarsson alveg eins og hv. þm. Brynjar Níelsson tóku báðir í ræðum sínum þó fram að sú ríkisstjórn hefði varið þá verst stöddu með því að hreyfa ekki við strípuðum bótum. En til þess að öllu sé til haga haldið þá talaði formaður fjárlaganefndar og fór með digur svigurmæli og sagði ekki rétt frá þegar hún hélt öðru fram. Það er önnur saga.

Það eru fjórar staðreyndir sem menn þurfa að gera sér grein fyrir varðandi stöðu öryrkja og það hvað þessi ríkisstjórn hefur gert og ekki gert gagnvart þeim. Í fyrsta lagi eru aldraðir og öryrkjar í dag sem eru á strípuðum bótum nauðbeygðir til þess að lifa af 172 þús. kr. á mánuði eftir skatta. Ég spyr nú minn góða vinnufélaga hv. þm. Karl Garðarsson: Gæti hann það? Ef hann svarar því játandi væri það í fyrsta skipti sem ég efaðist um að hann mælti af heilum huga. Þetta er fyrsta staðreyndin.

Í öðru lagi. Þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins segja að þeir hafi bætt stöðu aldraðra og öryrkja þá er staðan þessi. Á þeirra tíma, á nánast þremur árum, hafa kjör aldraðra og öryrkja batnað sem svarar skitnum 10 þús. kalli á mánuði þegar búið er að taka tillit til skatta. Það er staðreyndin. Það er að gerast í góðæri sem landsbankastjóri segir að sé blússandi. Þetta verða menn að hafa í huga.

Í þriðja lagi. Af þessum 10 þús. kalli sem búið er á tæpum þremur árum af hálfu ríkisstjórnarinnar að bæta kjör öryrkja er búið að taka tæpan 4 þús. kall til baka með matarskattinum sem tók gildi um síðustu áramót. Í reynd er staðan þannig að það eina sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert fyrir aldraða og öryrkja er að hún hefur bætt við 6 þús. kalli þegar búið er að taka tillit til skatta.

Það fjórða sem skiptir máli í þessari umræðu er sú staðreynd að aldraðir og öryrkjar eru eini hópurinn á öllu Íslandi sem ekki fá afturvirkar bætur. Tillaga okkar er um það að ríkissjóður verji 6,5 milljörðum til þess að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar bætur til 1. maí. Er það sanngjarnt eða ósanngjarnt? Hvað fá alþingismenn? Hvað fá ráðherrar? Þeirra launahækkanir eru afturvirkar og ná ekki einu sinni til 1. maí heldur lengra aftur, til 1. mars. Þetta eru þessar fjórar staðreyndir sem liggja eftir í þessari umræðu.

Maður hefði ætlað miðað við yfirlýsingar Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar, samþykktir á landsfundi undirstrikun á vilja þeirra í stjórnarsáttmálum þar sem ást og samúð til aldraðra og öryrkja er útausið af miklu örlæti, að meira stæði eftir. Ég hefði kannski skilning á stöðunni ef núverandi ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefði tekið við því svartholi sem fyrri ríkisstjórn tók við. Hún tók við ríkissjóði þar sem hafði verið jafn hagvöxtur í landinu frá miðju ári 2010 og nú er staðan þannig að það hefur verið hagvöxtur í fimm ár. Þegar hún tók við þá hafði staða ríkissjóðs batnað ár frá ári allt frá 2008. Hvað sjáum við hafa gerst núna? Tekjustofnar ríkisins hafa verið veiktir með þeim hætti að í blússandi góðæri er varla verið að skila afgangi sem einhverju marki nemur, tæpum 10 milljörðum. Hvert er umfangið? Tekjurnar eru 700 milljarðar. Þær aukast ekki ár frá ári, þ.e. afgangur ríkissjóðs hefur ekki verið að aukast. Þegar maður skoðar síðan ríkisfjármálaáætlun til 2019 og skoðar þau nefndarálit sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram, þá er það klárt að menn gera ekki ráð fyrir því að skuldir ríkissjóðs lækki á þessu tímabili. Hvað er þá verið að gera við vaxandi tekjur ríkissjóðs? Jú, þær fara í margvísleg útgjöld.

Ég ætla ekki að þreyta vinnufélaga mína í stjórnarliðinu með því að tala hér um Stjórnstöð ferðamála, húsameistara ríkisins, eða sendiráð í Strassborg, allt nýjar lúxusstofnanir sem er verið að búa til, auka á fitulögin utan um ríkiskerfið. Ég ætla að ræða það sem hefur gerst á þessum degi. Við höfum fyrir utan það frumvarp sem hér er verið að ræða líka verið að ræða frumvarp til ýmissa ráðstafana sem tengjast fjárlagafrumvarpinu, hinn svokallaða bandorm. Mig rak í rogastans þegar ég sat hér undir umræðum í gær og hlustaði á fyrirspurn sem beint var til hv. þm. Willums Þórs Þórssonar um hvað tiltekin skattaaðgerð kostaði þar sem verið er að breyta samsköttun sambúðaraðila og hjóna. Það kom í ljós að hún kostaði 3,5 milljarða. Afleiðingar hennar eru að það eru einkum þeir tekjuhæstu sem fá ávinning af skattalækkun upp á 3,5 milljarða. Það er helmingurinn af því sem þarf til þess að kosta tillögu um að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar bætur til 1. maí.

Hvað gerðist svo í morgun? Það kom fram í umræðum líka að verið er að breyta tekjuskatti með öðrum hætti, það er verið að afnema þrepaskiptinguna sem síðasta ríkisstjórn kom á. Hvað kostar það ríkissjóð? 6,5 milljarða. Hvert fara þeir peningar? Hverjir eru þeir sem njóta þeirra skattalækkana? Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir gerði ítarlega grein fyrir því í ræðu sinni fyrr í dag. Það var lærdómsríkt að hlusta á þær útlistanir. Það kemur í ljós að þeir sem eru með 700 þús. kr. í tekjur á mánuði munu, þegar breytingin er að fullu fram gengin eftir tvö ár, koma út með 12 þús. kr. meira. Þeir sem eru með 240 þús. kr., þeir sem eru á lægstu töxtunum, fá ekki neitt.

Herra trúr. Hvað er eiginlega að gerast hér? Það er verið að veikja tekjustofna ríkisins með því að breyta skattkerfinu þannig að hinir tekjuhærri fá mest út úr því, en þeir sem hafa minnstar tekjur fá ekki neitt, ekki eina krónu. Sjáum síðan til hvað þetta kostar. Jú, samanlagt kosta þessar tvær breytingar 10 milljarða kr. Það er herkostnaðurinn.

Skattkerfisbreytingin, að taka þrepaskiptinguna af, á að taka tvö ár og kostar 11–12 milljarða. Hvað kostar það ríkissjóð að greiða afturvirkar hækkanir vegna kjarasamninga á þessu ári og síðan sömu bætur á næsta ári vegna kjarasamninga? Það kostar sömu upphæð, 11–12 milljarða. Svo koma hv. þingmenn stjórnarliðsins grátbólgnir hingað í ræðustól, eins og ég er viss um að hv. þm. Karl Garðarsson gerir hér á eftir, og segja: Það vantar peninga, við viljum gjarnan hjálpa öldruðum og öryrkjum en það eru ekki til peningar í ríkissjóði. Á sama tíma og sumir þeirra hafa sagt það þá blasir við að þetta lið er að samþykkja skattalækkanir sem koma einkum þeim til góða sem hafa mestar tekjur, sem kosta um það bil sömu fjárhæð og við hefðum getað notað til þess að koma til stuðnings öldruðum og öryrkjum, sjá til þess að þeir væru ekki afgangsstærð og þeir nytu hins sama og allir aðrir í samfélaginu og fengju líka bætur sem eru afturvirkar.

Það er alveg sama hvað þingmenn eins og hv. þm. Karl Garðarsson eða Brynjar Níelsson segja, það er staðreynd að á þessu ári þá munu aldraðir og öryrkjar ekki fá krónu í afturvirkar bætur. Svo munu þeir örugglega koma þessir ágætu herramenn og segja: Fyrri ríkisstjórn stóð sig nú ekkert betur. Það er algjörlega rétt, en það var við allt aðrar aðstæður. Ríkissjóður var gjaldþrota. Það þurfti að stoppa upp í 217 milljarða gat. En hvað gerði sú ríkisstjórn samt? Jú, vitaskuld fór hún um allt samfélagið og skar niður þar sem hún gat. En hvernig beitti hún sér gagnvart bótakerfinu? Vissulega er það rétt að skerðingum vegna atvinnutekna og vegna lífeyristekna var breytt í það horf sem það hafði verið best fyrir árið 2007. En það sem sú ríkisstjórn gerði var að hún hélt varðstöðu sinni um þá sem verst voru settir og hún gerði það með því að bætur til þeirra sem höfðu hvorki lífeyristekjur né atvinnutekjur héldust óskertar hvað sem formaður fjárlaganefndar heldur fram um það. Það er staðreyndin eins og reyndar ærlegir menn í hópi stjórnarliða hafa líka bent á.

Hvað gerðist á árinu 2011? Þá voru kjarasamningar á miðju ári. Bætur aldraðra og öryrkja hækkuðu í sama mæli og laun hækkuðu í þeim kjarasamningum. Þar var meðal annars samið um eingreiðslu, 51 þús. kr. á miðju ári. Hvað gerði ríkisstjórnin? Jú, aldraðir og öryrkjar fengu þá eingreiðslu óskerta, svo að það liggi kristaltært fyrir.

Herra forseti. Til þess að súmmera upp í lokin þá stendur eftir þessa ríkisstjórn í fyrsta lagi að það eina sem hún hefur gert er að hún hefur hækkað kjör aldraðra og öryrkja í mesta góðæri síðari tíma um 10 þús. kall á mánuði. Þegar tekið er í öðru lagi tillit til matarskattsins sem kom á um síðustu áramót þá lækkar sú upphæð niður í 6 þús. kall. Það stendur eftir í þriðja lagi að í dag, undir ríkisstjórn sem býr við besta góðæri sem við höfum séð á seinni tímum, þá lifa aldraðir og öryrkjar á 172 þús. kr. á mánuði þegar búið er að taka tillit til skatta. Í fjórða lagi er það staðreynd sem ekki er hægt að mótmæla að ekki er króna á þessu ári sett í afturvirkar hækkanir á kjörum og bótum aldraðra og öryrkja. Það er það sem við höfum verið að deila um hér dögum og vikum saman. Ég get að minnsta kosti fyrir minn hatt í því sem líkast til er mín síðasta ræða um þessi mál sagt að ég er stoltur af stjórnarandstöðunni fyrir að hafa staðið í ístaðinu. Við erum kjararáð aldraðra og öryrkja. Þeir geta ekkert annað farið. Þeir eiga að koma hingað. Því miður er stjórnarmeirihlutinn þannig gerður í dag að menn fara bónleiðir búðar til.