145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[21:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við erum að tala um er að það sem við sáum til dæmis í Danmörku strax eftir bankaáfallið í heiminum var að þeir sem héldu áfram í aðdragandanum þegar bólan var mest í Danmörku fyrir hrunið, fyrir árið 2008, þá voru það þau félög þar sem voru að reyna að stuðla að því að byggja hagkvæmar íbúðir og ná niður húsnæðiskostnaðinum. Það sáum við líka þegar kom að verkamannabústaðakerfinu á sínum tíma, að þeir voru frumkvöðlar að því að reyna að byggja sem hagkvæmast húsnæði.

Það hefur verið þannig hér á undanförnum árum að helst það sem hefur hækkað hjá okkur er húsnæðisliðurinn. Ég mundi nú telja að við gætum vissulega verið að einhverju leyti að dempa verðbólguþrýstinginn með því að fjölga hagkvæmari íbúðum, og annað að þróa nýjar byggingaraðferðir, eins og við ætlum líka að leggja áherslu á, til að lækka kostnaðinn enn frekar.

Ég vil líka benda á að ég er að mörgu leyti sammála því að markaðurinn getur gert margt betur, sem snýr að þessu, en endilega hið opinbera. Markaðurinn getur hins vegar ekki sinnt hinum félagslega þætti húsnæðiskerfisins. Það höfum við reynt í hverju landinu á fætur öðru. Þar er almannaþáguhlutverk stjórnvalda svo gífurlega mikilvægt. Þar erum við að tala um skýr tekju- og eignaviðmið, hverjir það eru sem við ætlum að huga að í þessu kerfi. Þetta er ekki fyrir alla þó að við tölum hér um almennar íbúðir, en það er til fólk sem hefur minnst á Íslandi sem við ætlum að styðja við og það hafa stjórnvöld gert, held ég, í nánast hverju einasta (Forseti hringir.) vestrænu ríki sem vilja vera með velferðarkerfi og það er hugsunin á bak við þetta kerfi.