145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsaleigulög.

399. mál
[21:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig minnir að ein af hugmyndunum sem komu fram við vinnu samvinnuhópsins hafi verið á þá leið að menn veltu fyrir sér einhvers konar sjóði eða ábyrgðum sem sneru að þessum tryggingum. Niðurstaða okkar varð, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að búa til viðbótarheimild sem sneri að tryggingum þannig að leigusali gæti búið til samtryggingarsjóð gegn vanefndum og skemmdum varðandi leigusamninginn. Það er verið að taka út möguleikann á því að vera með fyrirframgreiðslu. Ég tel að það sé veruleg réttarbót. Síðan hefur líka verið möguleiki á bankaábyrgð, eins og var nefnt hér. Það varð niðurstaða okkar að hafa þetta með þessum hætti.

Við vonumst svo sannarlega til að leigusalar, alla vega þeir sem eru lögaðilar, skoði mjög alvarlega þann möguleika að bæta þessu inn, ekki síst ákvæðinu sem snýr að samtryggingarsjóðnum. Þetta er hugmynd sem menn hafa verið að láta reyna á og hér er verið að búa til lagarammann utan um hana. Mér skilst að þetta hafi gefið ágætisraun.