145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsaleigulög.

399. mál
[21:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja að segja í þessari ræðu, sem ég ætla að hafa alveg örstutta, að mér fannst það hljóma ansi vel sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni um 3. mgr. 2. gr., sem varð talsverð umræða um á síðasta þingi, og það að verið sé að setja inn sérstakt ákvæði um leigu íbúðarhúsnæðis á áfangaheimilum. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg breyting frá því í fyrra. Ég fagna því líka að það komi inn í 3. gr. klausa um að leigusala sem er lögaðili sem er ekki rekinn í hagnaðarskyni sé heimilt að setja málefnaleg og lögmælt skilyrði fyrir leigu íbúðarhúsnæðis. Ég held að þetta sé rosalega góð breyting á frumvarpinu frá því sem var þegar það var lagt fram í fyrra og ég fagna því.

Í kvöld er hæstv. ráðherra búinn að mæla fyrir húsnæðisfrumvörpunum. Þetta eru stór og mikil mál eins og mátti heyra á því hversu hratt ráðherra þurfti stundum að tala. Það sést líka á því hversu þykkt þetta er, það liggur við að maður tali um rúmmál frumvarpanna. Húsnæði er auðvitað eitt af því mikilvægasta sem er til í lífi fólks og þess vegna langaði mig að kveðja mér hljóðs og halda örstutta ræðu við lok umræðunnar, því að líkt og hæstv. ráðherra sagði er mjög mikilvægt að þessi mál séu skoðuð saman í heild. Það er því svolítið bagalegt hversu seint þau koma fram en ég fagna því engu að síður að þau séu núna komin fram og það er örugglega þeim mun mikilvægara að hv. velferðarnefnd fái góðan tíma til þess að fara yfir málin. Þetta eru stór og flókin mál. Mig langar að fagna því sem kom fram í andsvörum áðan þar sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem jafnframt er formaður hv. velferðarnefndar, sagði að það yrði fundur í nefndinni í fyrramálið og þá yrðu frumvörpin send út til umsagnar. Mig langar að segja að mér finnst mikilvægt af því við erum að fara inn í tíð jólafría að það verði gefinn góður umsagnarfrestur á frumvörpin. Ég veit að það liggur á að klára málin en þetta eru samt þannig mál að það er mikilvægt að vanda til verka.

Að öllu því sögðu langar mig að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að frumvörpin séu komin fram. Nú eru málin komin til þingsins og það verður verk hjá hv. velferðarnefnd að ganga frá þessu og spennandi að sjá hvernig framhaldið verður.