145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:48]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að þetta sé spurning um réttlæti. Þetta er spurning um að svara ákalli frá öryrkjum og eldri borgurum sem báðu okkur sem höfum með þessi mál að gera að koma til móts við kröfur þeirra. Þau hafa ekki í nein önnur hús að venda. Þetta er ákall frá fleirum en þeim. Þetta er í rauninni ákall frá þjóðinni. Skoðanakannanir hafa sýnt að yfir 95% þjóðarinnar vilja að þessir hópar standi jafnfætis öðrum þegar kemur að þessum málum. Ég segi eins og aðrir: Ég skora á þingmenn stjórnarflokkanna og ríkisstjórnina að breyta hug sínum í þessu máli og veita þessum hópum slíka afturvirka kjarabót. Það yrðu mjög góð skilaboð inn í samfélagið í dag.