145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að reyna um of á þolrifin í varaformanni Íslandsdeildar NATO-þingsins, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, með því að fara að lengja umræður um þessa skýrslu, en hv. þingmaður lýsti nú nokkrum áhuga á því að við færum aðeins dýpra ofan í umræður um undirrót ástandsins sem nú er í Úkraínu og á Krímskaganum og hefur verið þar. Ég ætla ekki að skorast alveg undan því án þess að þykjast vera nokkur sérstakur sérfræðingur í þeim efnum en auðvitað hefur maður fylgst með þessum atburðum eins og væntanlega flestir sem áhuga hafa á alþjóðamálum. Ég hafði nokkur kynni af ástandinu á þessu svæði þegar ég var á Evrópuráðsþinginu í Strassborg og málefni þessa svæðis, Úkraínu meðal annars, bar alloft á góma, svo ekki sé talað um mannréttindaástandið í Hvíta-Rússlandi. Á sínum tíma kom sú merka kona Júlía Tímósjenkó og ávarpaði Evrópuráðsþingið í tengslum við umfjöllun um þeirra mál og skýrslu sem lá þá fyrir þinginu um stöðu mála í Úkraínu o.s.frv.

Þessir atburðir eru á ýmsan hátt flóknir bæði sögulega séð og pólitískt og hafa má ýmsar skoðanir á þeim. Varðandi Krím verður þó að horfast í augu við að það er ekkert alveg svart/hvít mynd sem við blasir þegar horft er til sögulegra aðstæðna þar sem og lýðfræðilegra aðstæðna. Eins og þekkt er var Krím um árhundruða skeið hluti af Rússlandi og rússneska keisarardæminu og Sovétríkjunum og svo var það í einhverju bríaríi fært yfir til Úkraínu fyrir ekkert óskaplega löngum tíma í sögulegu samhengi séð. Íbúarnir eru að miklum meiri hluta Rússar eða rússneskumælandi. Vissulega eru þar minnihlutabrot sem maður hefur verulegar áhyggjur af, en því verður þó tæpast á móti mælt ef málið er skoðað í þjóðréttarlegu samhengi, og menn eru hér að velta fyrir sér lögmæti og ólögmæti aðgerða, þá er að minnsta kosti ein þjóðréttarleg forsenda uppfyllt fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða eða þjóðarbrota og það er að yfirgnæfandi meiri hluti íbúanna á þessu svæði, ég held að ekki verði um það deilt, vill frekar tilheyra Rússlandi en Úkraínu ef þeir eru neyddir til að velja þar um, ef einhverjar slíkar aðstæður koma upp. Þarna fór fram einhver kosning þar um. Þeir hafa líka þessa sögulegu skírskotun. Svo er það alltaf spurningin um hvaða afstöðu menn taka þegar málið snýr að árekstrum milli þjóðréttarins í þeim skilningi að eitthvað eigi að heita viðurkennd landamæri af einhverjum sögulegum ástæðum, jafnvel þó að ekki sé nema nokkra áratugi til baka litið og svo hinu að við svona aðstæður hafi íbúar ákveðinn sjálfsákvörðunarrétt.

Menn fullyrða að þetta sé skýrt brot á alþjóðalögum. Það er best að láta lögspekingunum það eftir og þjóðréttarfræðingunum að taka stórt upp í sig í þeim efnum, ekki ætla ég að gerast mikill spekingur um það. Ég verð þó að segja alveg eins og er, kannski getur hv. þingmaður, varaformaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, hjálpað okkur í þeim efnum, að ég hef aðeins velt því fyrir mér og stundum spurt að því: Hver er munurinn á því að viðurkenna sjálfstæði í Kósóvó og viðurkenna sjálfstæði eða sjálfsákvörðun, de facto sjálfstæði, í formi sjálfsákvörðunarréttar íbúanna á Krím? Hver er hann? Ef það var alveg sjálfsagt og ekki brot á neinum alþjóðalögum að viðurkenna Kosovo á sínum tíma, hver er þá staðan þegar kemur að Krím?

En varðandi framferði Rússa almennt og íhlutun þeirra í austanverðri Úkraínu held ég að ekki sé nokkur vafi á því að þar á sér stað brot á alþjóðalögum. Þeir eru að fótumtroða sjálfstæði Úkraínu sem ríkis með íhlutun sinni í austurhéruðum Úkraínu. Undir það get ég sannarlega tekið. Það finnst mér á margan hátt ekki síður gild ástæða til þess að veifa einhverjum refsivendi að þeim. Ég held að það sé alveg hafið yfir vafa þótt reynt sé að fela það með ýmsum ráðum að þar er ekki bara Rússland sem slíkt heldur beinlínis rússneski herinn eða rússneskar sérsveitir í mismiklum dularklæðum að blanda sér beint í átökin. Þeir hafa tekið afstöðu og hafa íhlutast um mál innan landamæra annars sjálfstæðs ríkis. Það verður ekki horft fram hjá því að þar er um skýlaust brot að ræða enda engar heimildir í alþjóðalögum til neinnar slíkrar íhlutunar nokkurs staðar frá. Þær hefur svo sem skort víðar þótt menn hafi látið sig hafa það eins og kunnugt er.

Um aðdragandann að atburðunum á Maidan-torgi, ég er heldur ekki sérfróður um það en þó hef ég lesið dálítið um það. Það fara býsna sterkar sögur af því að kynnt hafi verið undir því ástandi utan frá og ekki bara með því að skapa óraunhæfar væntingar heldur hafi það verið rúmlega það. Menn hafi beinlínis verið inni í landinu og veifað því að fólki að það gæti fengið skjótfengna aðild að Evrópusambandinu, jafnvel NATO, ef það losaði sig við réttkjörin stjórnvöld sem væru vinveitt í austurátt. Þetta er auðvitað óskaplegt hættuspil og óskaplega misráðið og sömu gömlu hroðalegu mistökin að ímynda sér að menn geti bara stjórnað framvindu í fjarlægu landi við flóknar aðstæður, ég tala nú ekki um eins og vel þekkt er og hefur verið í Úkraínu að landið er mjög klofið í þessum efnum. Það er mjög klofið milli þeirra sem horfa í vesturátt og vilja tengjast Vestur-Evrópu þéttari böndum og svo hinna sem er tamara að horfa til samstarfs við Rússa og samvinnu í þá átt. Þetta á sér menningarlegar rætur, tungumálalegar og viðskiptalegar og þar fram eftir götunum. Menn hefðu átt að geta sagt sér það að ekki væri einfalt mál að ætla að hrifsa til sín áhrifavald yfir framvindu mála þarna. Ætli það hefði ekki verið af tvennu illu skárra að reyna að láta Úkraínumenn finna út úr þessu sjálfa en að fara beinlínis að ýta undir að þarna brystu á blóðug átök og landið klofnaði meira og minna upp á þessum grunni? Það hefur orðið afleiðingin af þessum atburðum. Tek ég þá fram eins og ég hef sagt fyrr í andsvari að enginn er ég aðdáandi þeirra stjórnvalda sem þarna voru fyrir. En mér sýnist nú heldur ekki vera neitt sérstaklega félegt á bak við sum þau öfl sem komust einmitt til valda í Maidan-byltingunni. Fasísk og rasísk sjónarmið vaða þar uppi. Það má deila um hvort er félegra í þeim efnum.

Niðurstaðan er eins og svo oft áður sú að menn ættu að ígrunda betur og hugsa út í hvað þeir eru að fara þegar þeir ætla sér að fara að hlutast til um innri mál í einstökum ríkjum eða svæðum.

Ég ætla að láta þennan pistil duga sem viðbrögð mín við ósk hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að fara aðeins dýpra ofan í umræðu um þetta mál sem var tilefni orðaskipta í andsvari í upphafi.