145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða. Ég hlakka til framhaldsins og vil vekja athygli á því sem kom fram í umræðunni frá Íslandsdeild ÖSE-þingsins að þar á bæ stendur yfir vinna við að útfæra nánari skilgreiningu á því hvert ályktanir eigi að fara, hvernig eigi að vinna með þær o.s.frv. Við erum nú þegar byrjuð að ýta aðeins af stað þessum bolta um bætt vinnubrögð. Það er alltaf gagnrýni á það þegar stjórnmálamenn eru í útlöndum og þykir ákveðinn óþarfi í sumum tilfellum að vera að taka þátt í þessu starfi. Það er einfaldlega vegna þess að við erum ekki nægilega dugleg við að upplýsa um hvað þetta er, hvað í þessu felst og sýna fram á að þetta skili árangri.

Ég vil sjá árangur af því sem við erum að gera. Ég hef alveg séð fundi sem kannski skila ekki gríðarlega miklum árangri. Þá byrjar strax umræðan: Var þetta þarft, var þetta þörf ferð, eða var þetta bara svokallaður, með leyfi forseta, „parliamentary tourism“? Ég hef engan áhuga á að taka þátt í slíku starfi. Það á að heyra sögunni til. Við eigum að vera að gera eitthvað af viti.