145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:15]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að umboðsmaður aldraðra verði skilvirkara form en öldungaráðin en tel samt sem áður að öldungaráðin skili mjög vel því sem þeim er ætlað að skila og séu mikil bót og mikilvægt að rödd þessara einstaklinga fái að heyrast innan stjórnsýslu sveitarfélaga, bæja og borga.

En það er rétt sem hv. þingmaður segir að það gerist ekkert af sjálfu sér í þessu kerfi. Of oft hef ég heyrt af fólki, jafnvel nálægt mér, sem er að leita réttar síns og fær svör við hvers vegna lífeyrir sé skertur í tekjuáætlun og þess háttar og svörin eru: Það er bara svona. Fólk hefur ekki þekkingu til þess að spyrja eða ganga lengra til að fá skýrari og nákvæmari svör hvers vegna verið sé til dæmis að skerða bæturnar.

Mér finnst þetta afar göfug þingsályktunartillaga. Ég mun svo sannarlega veita henni atkvæði mitt enda einn af meðflutningsmönnum hennar.

Vegna þess að við erum með annan hóp sem á jafnframt stundum líka erfitt með að leita réttar síns, sem eru öryrkjar, þá langar mig að spyrja: Hvernig þætti hv. þingmanni ef þetta væri umboðsmaður lífeyrisþega? Kannski eru hóparnir það ólíkir þrátt fyrir að vera báðir í þessu kerfi. Kannski á það ekki samleið. Ég hef verið að velta fyrir mér ef þetta væri umboðsmaður lífeyrisþega, hvernig það liti út. En eins og ég segi, kannski eru hóparnir það ólíkir innbyrðis samt sem áður.