145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla.

68. mál
[17:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Því ber að fagna að hv. þingmaður hafi orðið fyrir þessum sterku áhrifum af Arnold Schwarzenegger á sínum tíma, hún hefur bersýnilega ekki gleymt neinu. Þessi tillaga er eins og stokkin út úr vísindaskáldsögu en hún er stórmerk engu að síður. Vegna þess að ég þarf að hverfa af vettvangi get ég ekki tekið þátt í frekari umræðu um tillöguna, en ég vildi koma hér til þess að lýsa alveg skilyrðislausum stuðningi við hana. Ég tel að hér sé verið að taka á mjög þörfu máli. Það er fullkomlega eðlilegt að við þingmenn á hinu háa Alþingi hins herlausa Íslands höfum skoðun á þessu máli. Það er sjálfsagt, finnst mér, og algjörlega í anda þeirrar utanríkisstefnu sem ríkisstjórn fram af ríkisstjórn fram hafa rekið að núverandi hæstv. utanríkisráðherra og aðrir sem með framkvæmdarvald fara og hafa til þess tök beiti sér fyrir alþjóðlegu banni af því tagi sem hér er um rætt.

Við höfum fyrr á þessum vetri rætt um með hvaða hætti vélar, róbótar og gervigreind geta haft áhrif á menningu Íslands og íslenska tungu. Hér er um að ræða annars konar þróun sem þó er tengd sama vaxtarmeiði og getur leitt til þess að í framtíðinni verði ómældar hörmungar sem leiða af því að menn beita gervigreind og sjálfvirkum stríðstólum sem taka hugsanlega í fyllingu tímans sínar eigin ákvarðanir til þess að ná markmiðum sínum í mannskæðum stríðum. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að ef hægt er ættu menn að leggja blátt bann við slíku.

Hv. þingmaður var með fínt dæmi hérna, sem mér kom einmitt í hug undir ræðu hennar, sem er af efnavopnum. Jú, það er stopul og dreifð notkun efnavopna enn þá, eins og við vitum að var beitt í stríðinu í Sýrlandi í fyrra af hálfu ISIS gagnvart Kúrdum. Það er eldra dæmi og miklu ljótara og verra einmitt úr þeim heimshluta. Eigi að síður er það þannig að hinar stóru (Forseti hringir.) þjóðir eru þó sammála um það að nota ekki efnavopn. Dæmin úr fyrri heimsstyrjöldinni leiddu til þess að menn gripu til banns af þessu tagi. Þess vegna held ég að svona bann mundi hafa áhrif þótt vitaskuld sé ekki hægt að stöðva tæknina, (Forseti hringir.) en það er hægt að koma í veg fyrir útbreiðslu vopna af þessu tagi.