145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að geta nú í hádeginu afhent hæstv. félags- og húsnæðisráðherra skýrslu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, svokallaðrar Pétursnefndar sem heitir í höfuðið á Pétri heitnum Blöndal, þeim mikla sómamanni sem gegndi lengi forustu í þeirri nefnd.

Fjölmargir hafa komið að þessari vinnu. Samvinna í nefndinni var yfir höfuð góð þó að nokkuð drægi úr henni á síðustu metrunum, því miður. En þó er ljóst að niðurstöður skýrslunnar eru ávísun á mestu breytingar sem gerðar hafa verið á almannatryggingakerfinu á Íslandi í áratugi ef af verður. Breytingarnar snúa að einföldun almannatryggingakerfisins, sveigjanlegum starfslokum og upptöku starfsorkumats í stað örorkumats.

Það er næsta víst að þó að tillögurnar sem fram koma í skýrslunni séu flestar mjög góðar er enn þá margt ógert. Enn skortir á að við höfum greint nægilega vel vandamál einstakra hópa innan þessara stóru hópa, aldraðra og öryrkja. Það er ekki hægt að tala um þessa hópa sem eitt mengi vegna þess að aðstaða þeirra er mjög mismunandi. Það er núna verk okkar í framhaldi af skýrslunni að vinna enn betur að því að kanna sérstaklega stöðu þeirra sem verst standa innan þessara hópa og grípa þá til sérstakra ráða til þess að þeir megi búa við betri lífskjör.

Heilt yfir er ekki laust við að maður geti verið ánægður með að skýrslan skuli nú loksins vera fram komin. Ég vona sannarlega að í framhaldinu muni fylgja frumvörp frá hendi ráðherra sem uppfylla það sem hér er sett fram.


Efnisorð er vísa í ræðuna