145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Græðgi er einn af höfuðlöstum mannskepnunnar og það virðist sem faraldur þess lastar gangi nú yfir Ísland. Bæði sjáum við þess dæmi að menn eru jafnvel að slá lán til þess að greiða sjálfum sér arð og henda afleiðingunum fram í tímann á ofurvöxtum.

Ég ætla að gera að umtalsefni bónusgreiðslur til bankastjórnenda sem hafa verið í umræðunni að undanförnu og eru satt að segja úr öllum takti við íslenskan veruleika. Svo virðist sem stjórnendur banka sem jafnvel eru nýendurreistir af ríkinu eða með aðkomu ríkisins og eru jafnvel að hluta til í eigu ríkisins séu að greiða sér bónusa sem eru venjulegu fólki á Íslandi óskiljanlegir. Okkur er sagt að alþjóðlegt samkeppnisumhverfi kalli á þessar greiðslur.

Nú er það þannig, herra forseti, að mér er ekki kunnugt um, ég veit náttúrlega ekki allt, marga íslenska bankamenn sem hafa farið úr landi og tekið við góðum stöðum í stórum bönkum erlendis.

Herra forseti. Ég er reiðubúinn að taka áhættuna af því að hér verði spekileki meðal bankamanna og þeir streymi til útlanda og fari að vinna í erlendum stórbönkum. Svo illa vill til að rúmlega 200 viðskiptamenntaðir menn eru á atvinnuleysisskrá á Íslandi og þeir geta örugglega hlaupið í skarðið fyrir laun sem samrýmast íslenskum veruleika. Þannig að ég er til í að taka séns á þessu, herra forseti.

Við settum lög í fyrra á Alþingi til þess að koma böndum á bónusgreiðslur og töldum okkur þá hafa komið því svo fyrir að menn mundu sjá að sér og fara ekki offari í þessu. Í ljósi nýorðinna atburða gæti verið nauðsynlegt fyrir okkur að breyta þessari lagasetningu og afnema með öllu bónusgreiðslur til bankamanna, þ.e. til stjórnenda banka, vegna þess að sá faraldur græðgi sem gengur yfir þjóðfélagið þessa dagana er með öllu óþolandi og hann þarf að stöðva.